UM HÖFUNDINN | BRAGI ÓLAFSSON

Að loknum ferli sínum sem bassaleikari rokkhljómsveita á borð við Purrk Pillnikk og Sykurmolana gaf Bragi Ólafsson úr ljóðabókina Dragsúg árið 1986. Í kjölfarið fylgdu smásagnasöfn og ljóðabækur en skáldsögur Braga hafa vakið athygli fyrir sérstakan stíl og nýstárleg söguefni. Skáldsagan Gæludýrin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 og árið 2004 fékk skáldsaga hans, Samkvæmisleikir, Menningarverðlaun DV. Þá hefur Bragi verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna Sendiherrann.
Í verkum sínum er Bragi snjall í að skapa andrúmsloft sem er í senn hversdagslegt og ógnvekjandi en þótt atburðarásin kunni að vera spennandi er eins og frásagnaraðferð Braga miði helst að því að ögra þörf okkar fyrir að hafa fast land undir fótum; ögra þeirri skoðun að til sé sönn og rétt útgáfa af veruleikanum sem hægt sé að miðla í hefðbundinni endursögn og rökréttri atburðarás.

0