UM HÖFUNDINN | FRÍÐA ÍSBERG

Fríða Ísberg gaf út sína fyrstu ljóðabók, Slitförin, árið 2017 og fékk Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir verkið. Fríða hefur fylgt bókinni vel á eftir með áleitnum verkum sem öll hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda og lesenda. Í smásagnasafninu Kláði (2018) fjallar hún um veruleika ungs fólks í Reykjavík samtímans, t.d. samskipti og stöðu kynjanna í nútímasamfélagi. Ljóðabókin Leðurjakkaveður kom út árið 2019 og fjallar m.a. um það hvernig fólk reynir að skapa sér sjálfsmynd eða ákveðna útgáfu af sjálfum sér sem það vill að aðrir skynji og upplifi. Skáldsagan Merking er fyrsta skáldsaga höfundar og kom hún út árið 2021. Þar er um að ræða vísindaskáldsögu sem gerist á Íslandi í framtíðinni þegar tæknin hefur á vissan hátt náð meiri stjórn á tilfinningalífi mannfólksins en góðu hófi gegnir. Merking tengist þannig smásögunni Hamingjan er slétt eins og hafið efnislega að því leyti að þar er um nokkuð „dystópíska“ sýn á framtíðina að ræða.

0