UM HÖFUNDINN | Halldór Stefánsson

Halldór Stefánsson (1892-1979) hafði þá sérstöðu meðal íslenskra rithöfunda að hann einbeitti sér aðallega að smásöguforminu. Eftir hann liggja fimm smásagnasöfn og nokkur leikrit en fyrsta bók hans, Í fáum dráttum, kom út árið 1930 og sú síðasta, Blakkar rúnir, kom út árið 1962. Halldór tók þátt í stofnun Félags byltingarsinnaðra rithöfunda en margar sögur hans eru pólitískar og hafa að geyma sterkan „sósíalískan“ undirtón. Einnig má finna tilraunir með expressjónísk stíleinkenni í verkum hans og eru sumar sögurnar um dulmögn tilverunnar og enn öðrum má skipa í flokk hryllingssagna. Stéttaandstæður, ádeila á efnishyggju og auðssöfnun eru algeng viðfangsefni í sögum hans og eru margar þeirra orðnar sígildar og tala beint til samtímans eins og sagan Stúlkan í dalnum sem fjallar um virkjanaframkvæmdir og stóriðju.

0