UM HÖFUNDINN | SVAVA JAKOBSDÓTTIR

Svava Jakobsdóttir (1930-2004) sendi frá sér sitt fyrsta ritverk hálffertug að aldri. Þetta var smásagnasafnið Tólf konur sem kom út árið 1965 en þar var skrifað um líf og stöðu kvenna í nútímasamfélagi á nýstárlegan hátt. Tveimur árum síðar kom út annað smásagnasafn, Veizla undir grjótvegg, þar sem „Saga handa börnum“ kom fyrst fram á sjónarsviðið. Gróteskar lýsingar og atburðarás sem nær langt út fyrir mörk hins fáránlega gera söguna ógleymanlega enda er hún fyrir löngu orðin sígild í íslenskum bókmenntum. Höfundur las söguna í Ríkisútvarpið árið 1975 og hefur RÚV gefið góðfúslegt leyfi fyrir því að upplesturinn sé gerður aðgengilegur hér á smásaga.is. Skáldsögur Svövu hafa ekki síður sett mark sitt á íslenska bókmenntasögu en sögurnar Leigjandinn frá árinu 1969 og Gunnlaðar saga frá árinu 1987 eru báðar brautryðjendaverk. Fyrir þá síðarnefndu var Svava tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

0