UM HÖFUNDINN | ÞÓRBERGUR ÞÓRÐARSON

Þórbergur Þórðarson (1888-1974) var einn af merkustu rithöfundum 20. aldar. Hann var ólíkindatól og brautryðjandi nýrra hugmynda hvort sem var í ritlist, stjórnmálaskoðunum eða vísindalegri hugsun. Verk hans skáru sig frá öðrum höfundum og gátu verið fjölbreytileg í efnistökum en áttu það flest sameiginlegt að byggja á sjálfsævisögulegum grunni. Meðal helstu verka hans eru Bréf til Láru (1924), Íslenskur aðall (1938), Ofvitinn I-II 1940-1941, Sálmurinn um blómið I-II (1954-1955) og Í Suðursveit 1956-1974.

Bréf til Láru hafði mikil áhrif á íslenskar bókmenntir er hún kom út árið 1924. Í henni voru alls kyns tegundir ritsmíða; ritgerðir, sendibréf, greinar um stjórnmál og trúmál en einnig textar sem kalla má smásögur. Sagan Morð! Morð! er dæmi um þetta. Hún er hálfgerð hryllingssaga í anda Edgars Allans Poe, upphafsmanns glæpa- og hryllingssagna. Þar er að finna kynngi magnaða lýsingu á ofsóknaræði og sjúklegri hræðslu við helvíti.

0