Módernismi í bundnu máli og lausu

Ólafur Víðir Björnsson

Bundið mál

Rím og stuðlasetning er sameiginlegt einkenni á fornum kveðskap germanskra þjóða. Snemma hvarf reglubundin ljóðstafasetning úr kveðskap annarra þjóða en Íslendinga og þeir lögðu einnig meira upp úr reglubundnu rími en frændþjóðirnar. Á síðustu áratugunum fyrir aldamótin 1900 sóttu órímuð ljóð mjög á meðal norrænna þjóða og jafnframt urðu aðrar breytingar í ljóðagerðinni. Ný yrkisefni og nýstárlegt myndmál fylgdu í kjölfar þeirra miklu þjóðfélagsbreytinga sem áttu sér stað á Norðurlöndunum. Hinn nýi veruleiki í nýjum heimi kallaði á nýja gerð ljóða. Þessi nýja stefna í ljóðagerð er stundum kölluð módernismi en raunar er það orð notað um ýmsar nýjungar í listum sem fram komu á ýmsum stöðum á síðustu áratugum 19. aldar og fram yfir miðja 20. öld.

Hér á landi urðu þessar breytingar, bæði á samfélagi og í ljóðagerð, um hálfri öld síðar en annars staðar á Norðurlöndum. Reyndar hafði eitt og eitt skáld áður ort órímuð og nýstárleg ljóð. Jóhann Sigurjónsson mun hafa ort ljóðið „Sorg“ 1908-1909, eða um það leyti sem fyrstu módernísku ljóðin birtust á Norðurlöndum. Þetta ljóð er af mögum talið eitt allra fyrsta móderníska ljóðið á íslensku þótt það kæmi ekki út á prenti fyrr en 1927. Kvæði Halldórs Laxness, „Únglíngurinn í skóginum“, er frá árinu 1925 og Jóhann Jónsson orti ljóðið „Söknuður“ líklega árið 1926. Annars konar dæmi er að finna í ljóðabókinni Flugur eftir Jón Thoroddsen sem kom út 1922. Hún er fyrsta íslenska ljóðabókin sem hefur eingöngu að geyma prósaljóð.1 

Fyrstu ljóðasöfnin, sem sýna ótvírætt að ný ljóðlist er að skapa sér sess hér á landi, komu út þegar leið á fimmta áratug 20. aldar. Ljóðabókin Þorpið eftir Jón úr Vör er fyrsta formbylingarverk í íslenskri ljóðagerð. Bókin kom út árið 1946 og hefur að geyma safn órímaðra og óbundinna ljóða. Í ljóðunum er engin regla í rími, hrynjandi né ljóðstafasetningu. Finnist eitthvað af þessu virðist það vera handahófskennt. 

Árið 1948 kom út ljóðaflokkurinn Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr. Í ljóðunum eru ljóðstafir og í sumum er rím. Ljóðin eru torskilin, hlaðin myndum og líkingum.

Skáldin, sem um miðja 20. öldina leiddu módernismann eða formbyltinguna í íslenskri ljóðagerð til sigurs og hlutu nafnbótina atómskáld, voru: Hannes Sigfússon: Dymbilvaka (1949); Stefán Hörður Grímsson: Svartálfadans (1951); Sigfús Daðason: Ljóð 1947-1951 (1951); Einar Bragi: Eitt kvöld í júní (1950) og Svanur á báru (1952); Jón Óskar: Skrifað í vindinn (1953). Þó ljóð þessara fimmmenninga væru ólík var löngun þeirra hin sama, „að tjá samtíma sinn í orðum og vera í uppreisn gegn ríkjandi hefðum; að láta ljóð sín vekja lesandann til umhugsunar um ljóð og ljóðagerð almennt, og jafnframt til nýrrar hugsunar.“2 

Samhliða fyrstu módernistunum komu fram eftirtaldir höfundar með tímamótaverk: Thor Vilhjálmsson: Maðurinn er alltaf einn (smásagnasafn) (1950); Jónas Svafár: Það blæðir í morgunsárinu (1952); Anonymus, Jóhannes úr Kötlum: Sjödægra (1955). 

Dálítill hópur ungra skálda og listamanna í Reykjavík stóð árið 1953 að sofnun tímaritsins Birtingur með ljóðskáldið Einar Braga í broddi fylkingar. Tímaritinu var ætlað að stuðla að nýsköpun í bókmenntum og listum jafnframt því sem listamönnum gæfist tækifæri til að fylgjast með menningarstraumum á Vesturlöndum. Í því birtust viðtöl, greinar, sögur og ljóð. Tímaritið var málgagn módernismans í íslenskum listum, ekki síst í ljóðagerð. 

Skáldin voru í uppreisnarhug, þau vildu bylta aldagömlum ríkjandi hefðum og innleiða módernismann inn í íslenskt listalíf. Flestum óskrifuðum og ríkjandi reglum sem gilt höfðu til þessa í skáldskapnum var gefið langt nef, ljóðmál var endurnýjað og reynt á þanþol málsins. Ljóðskáldin settu sig á móti þröngum reglum bragformsins í ljóðagerðinni, gegn fastmótuðu ljóðmáli sem þau kölluðu „andlausa skrúðmælgi“ þar sem formið var látið þjóna efninu og gegn alls konar bundnu „þjóðlegu“ rausi sem var að þeirra áliti að kæfa ljóðið. 

Sama gilti um aðra listamenn, eins og t.d. í byggingarlist og málaralist. Þeir gerðust líka byltingarmenn, og myndlistarmenn sprengdu af sér fjötra hins hefðbundna natúralíska málverks. Ekki voru menn sáttir við þessa stefnu og skömmuðust miskunnarlaust út í myndlistarmennina og aðra sem studdu þá í dagblöðum þess tíma. Til háðungar voru frumkvöðlar módernismans í myndlist oft uppnefndir klessumálarar /…/. Hin nýju ljóð voru kölluð atómljóð í niðrandi merkingu og skáldin atómskáld eða bögubósar. Og talað var um „úrkynjunartímabil“ í íslensku lista- og menningarlífi.3

Nöfnin atómskáld og atómljóð eru fengin úr sögu Halldórs Laxness, Atómstöðinni sem kom út árið 1948, en þar notar höfundur þau um pilt sem fer ótroðnar slóðir og yrkir óhefðbundin ljóð. Honum og ljóðum hans eru valin þessi nöfn í háðungarskyni. Þess ber að geta að viðurnefnið atómskáld varð brátt að eins konar heiðurstitli. 

Hvað er það sem gerir ljóð módernískt? 

1) Óbundið form – Engin reglubundin hrynjandi né ákveðin skipting í erindi, enginn ákveðinn línufjöldi né línulengd. Oft ekkert rím eða það er sett eins og af handahófi. Hefðbundinni ljóðstafasetningu er sleppt.

2) Samþjöppun í máli – Ljóðin oftast fáguð og hnitmiðuð við eina mynd eða hugsun, ljóðin eru miðleitin. Knappur stíll, fáein orð koma í stað heillar setningar. Oft er einstökum setningarhlutum sleppt, t.d. umsögn, frumlagi. Vísun er oft beitt; kröfur gerðar til lesandans að hann þekki vísunina. Þversögn er algeng til að koma á óvart. Stundum eru ekki notaðir stórir stafir og ekki er gerð krafa um að setning greinarmerkja fylgi settum reglum.

3) Frjálsleg og óheft tengsl myndmálsins – Myndhverfing er oft meginuppistaðan í ljóðinu í stað röklegrar og skýrrar frásagnar. Viðlíkingar eru orðmargar og eiga því ekki upp á pallborðið í módernískum skáldskap. Forðast er að predika og vera mælskur. Skáldin eru lágmælt en orð þeirra geyma þeim mun meiri þunga. Ljóðið ber fremur að skynja en skilja röklegum skilningi. Myndmálið er því oft torskilið.4

Hver eru helstu yrkisefni módernistanna?

Skáldin beindu oft sjónum sínum að uggvænlegum heimi; gildiskreppu; smæð mannsins í uggvænlegri og flókinni tilveru; vandamálum skáldskaparins, vanda orðanna og því hvað skáldin væru einangruð; firringu borgarlífsins; umhverfisvernd og sambúð við náttúru; pólitík; ástinni sem aldrei er langt undan.5 Kalda stríðið og hersetan var áberandi yrkisefni. Kjarnorkuógnin var líka fyrirferðarmikið efni. Menn voru uggandi um stöðu sína og lífslíkur. Orðið firring var tískuorð. Maðurinn á erfitt með að sjá samhengið í tilverunni, margt kemur honum ókunnuglega fyrir sjónir, hann er umkomulaus og yfirgefinn í fjandsamlegri veröld þar sem áhrif hans á umhverfið eru lítil sem engin. Einsemd og angist mannsins er mikilvægt stef í íslenskum nútímabókmenntum eftir stríð, bæði meðal ljóðskálda og lausamálshöfunda. 

Þótt formbylting hafi átt sér stað með módernismanum eru mörg helstu skáld módernismans mjög bundin hefðinni og nota gamla bragarhætti, rím og stuðla. Vésteinn Ólason bókmenntafræðingur bendir á hugtakið nýklassík þegar hann lýsir hluta íslenskrar ljóðagerðar um miðbik 20. aldar. Hann segir „að rekja megi slóð nýklassíkur frá Jónasi Hallgrímssyni um ljóð Jóhanns Sigurjónssonar (a.m.k. sum hver) til þeirra Tómasar Guðmundssonar, Snorra Hjartarsonar, Guðmundar Böðvarssonar, Ólafs Jóhanns Sigurðssonar og síðar Hannesar Péturssonar og Þorsteins frá Hamri.“ 6(Sögur, ljóð og líf, 1998:80) 

 

Laust mál

Fyrsta íslenska skáldsagan, Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen, kom út árið 1850. Fáir nýir höfundar komu fram og fæstir þeirra lögðu á ný skáldsagnamið. Tvær byltingarkenndar tilraunir voru þó gerðar. Árið 1924 kom út Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson. Þar ægði öllu saman, sendibréfi, ritgerðum um trúmál og stjórnmál, þjóðsögum og boðun sósíalisma. Þremur árum síðar, 1927, sendi Halldór Laxness frá sér hið móderníska og súrrealíska7 verk, Vefarann mikla frá Kasmír. Eftir mikið blómaskeið í ritun skáldsagna í anda hins félagslega raunsæis hægði nokkuð á. Kalda stríðið og ógnarstjórn Stalíns hafði mengað hina hreinu trú sósíalískra raunsæishöfunda á að raunsæisskáldsagan (og sósíalisminn) væri bót allra samfélagslegra meina. Halldór Laxness gerði þetta tímabil að nokkru leyti upp í Gerplu. Sagan, sem kom út árið 1952, er eins konar endurgerð Íslendingasögunnar Fóstbræðrasögu. Hún er þó alls ekki venjuleg hetjusaga. Höfundur hæðist að stríðs- og hetjubrölti fornmanna og er skírskotunin til stríðsglaðra einræðisherra (t.d. Stalíns) nokkuð skýr. Í næstu skáldsögum sínum leitar Halldór að nýjum lífsgildum í stað þeirra sem hrundu með seinni heimsstyrjöldinni. Í Brekkukotsannál (1957), Paradísarheimt (1960), Kristnihaldi undir Jökli (1968) og Innansveitarkroniku (1970) er einfaldleiki lífsins dásamaður og vantrú á allar algildar kennisetningar skín í gegn. Þar er hæðst að þeim sem telja sig eiga algild svör við öllum vandamálum og er Halldór þar með að hæðast að sjálfum sér um leið.

Ólafur Jóhann Sigurðsson hafði sent frá sér skáldsögur þar sem fjallað var um hugsjónir og lífsbaráttu þeirrar kynslóðar sem hann kynntist í bernsku sinni. Hann sneri sér síðan að samtímanum; stríðið, stríðsgróðinn og inngangan í NATO kallaði á nýtt gildismat. 

Í bókum sínum 79 af stöðinni (1955) og Landi og sonum (1963) „lagði Indriði G. Þorsteinsson mikilvægan og listrænan skerf til lýsingar á aðstæðum og örlögum þeirrar kynslóðar sem tók saman föggur sínar í sveitinni á stríðsárunum eða rétt eftir stríð og fluttist í höfuðstaðinn.8

Ásta Sigurðardóttir var hvort tveggja rithöfundur og myndlistarkona. Henni entist ekki aldur til að senda frá sér nema eina bók, smásagnasafnið Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns (1961). Samnefnd smásaga hennar vakti bæði hrifningu og hneykslun þegar hún birtist fyrst, í tímaritinu Líf og list (1951). Í smásögunni „Gatan í rigningu“ fjallar Ásta á einkar hlýjan og í senn glettinn hátt um líf útigangsfólks í Reykjavík. Hiklaust má segja að Ásta hafi haft mikil áhrif á innreið módernismans í íslenska sagnagerð.

Guðbergur Bergsson vakti mikla athygli með bók sinni Tómas Jónsson. Metsölubók (1966). Þar fjallar hann á sinn sérstaka hátt um upplausnina í samfélaginu og óhefðbundið gildismat persónanna. Lýsingarnar þykja minna á ljósmyndir.

Eftir Jakobínu Sigurðardóttur kom út skáldsagan Dægurvísa (1965) sem er fyrsta íslenska hópsagan sem svo er nefnd. Þar er ekki nein ein aðalpersóna heldur er greint frá hópi persóna sem glímir við svipuð vandamál, hver með sínum hætti. Baráttan gegn stríði og stríðsrekstri kemur skýrt fram í sögunni. 

Svava Jakobsdóttir fjallar í smásögum sínum einkum um stöðu konunnar í nútímasamfélagi. Hún er „einn fremsti fulltrúi absúrdisma og femínisma í íslenskum bókmenntum 20.aldar   Í smásagnasafninu Veizla undir grjótvegg (1967) er ein kunnasta og að margra mati besta smásaga Svövu, „Saga handa börnum“. „Sagan gerist samtímis á tveimur plönum. Annað er vandlega staðsett í hversdagslegum veruleika, hitt er fjarstæða og þar getur allt gerst.“11

Helstu einkenni hinnar módernísku sögu

Í módernískri sögu eru brotnir múrar milli epískrar frásagnar (með upphafi, miðju og endi), leikritunar og ljóða. Sagan getur sem sagt verið allt þetta í senn og með breytilegan stíl. Rökrænni frásögn er kastað fyrir róða þar sem eitt leiðir af öðru. Atburðarás virðist fljótt á litið engin sem er þó ekki raunin, en hún er sjaldan rökrétt. Sjónarhornið er eins og í kvikmynd, í stað hefðbundins söguþráðar koma klippimyndir af hugsunum og gjörðum sögupersóna, og algengt er að sjónarhornið flökti milli persónanna, oft þannig að lesandi veit ekki alltaf hver það er sem talar eða hugsar. Innra líf sögupersónanna er í brennidepli, lesandanum er kippt inn í hugarheim þeirra og hann látinn fylgjast gaumgæfilega með sérhverri hugsun sem brunar um koll þeirra og viðbrögðum þeirra við áreitum hins daglega lífs. Samtöl manna í milli og einræður hugans er reynt að hafa eins og í raunveruleikanum. Í sumum sögum er söguramminn raunsær en atburðir sem gerast innan hans taka á sig fáránlega mynd. Flækja eða átök eru ekki eins sýnileg en krauma undir yfirborðinu ef eru. Tíma er ruglað, sögutími, innri tími, er þá jafnlangur þeim tíma sem tekur að lesa textann.12

 1Jakob Benediktsson 1983:206; Hannes Pétursson 1972:77

2,3 Brynja Baldursdóttir og Hallfríður Ingimundardóttir 2007:163

 Eysteinn Þorvaldsson 1980:196; Brynja Baldursdóttir og Hallfríður Ingimundardóttir 2007:158-159

 Brynja Baldursdóttir og Hallfríður Ingimundardóttir 2007:160-162

 

 

Heimildir

Brynja Baldursdótir og Hallfríður Ingimundardóttir. 2007. Tíminn er eins og vatnið. Íslensk bókmenntasaga 20. aldar. IÐNÚ, Reykjavík.

Eysteinn Þorvaldsson. 1980. Atómskáldin. Aðdragandi og upphaf módernisma í íslenskri ljóðagerð. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Hannes Pétursson. 1972. Bókmenntir. Alfræði Menningarsjóðs. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélgsins, Reykjavík.

Heimir Pálsson. 1998. Sögur, ljóð og líf. Íslenskar bókmenntir á 20. öld. Vaka-Helgafell, Reykjavík.

Jakob Benediktsson ritstýrði. 1983. Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Bókmenntastofnun Háskóla Íslands, Mál og menning, Reykjavík.

 

0