SJÁLFSMYND SYÐST Á ÍTALÍU

 

Undiraldan er þung, skrækir í börnunum kitla hlustirnar meðan öldurnar brotna og freyða í fjöruborðinu. Hún á bágt með að trúa því að hún liggi á sólarströnd á Sardiníu með angan af sólarvörn í vitunum og saltbragð á vörunum. En það hlaut að koma að því eftir draumóra um sólvolgan sjó í öll þessi ár. Ómur af lélegri tónlist berst eyrum hennar og suðar á undarlega þægilegan hátt, einhvers staðar er einhver að hlusta á dósapopp í heyrnartólum.

Hún opnar augun en pírir þau strax aftur í sterkri birtunni. Andspænis henni stendur maður en hún greinir aðeins útlínur hans í endurskininu frá sjónum. Með herkjum tekst henni að opna augun til fulls og sjá betur.

Manninn ber við himininn, tærbláa sjónarröndina. Þeldökkur og áberandi limalangur stendur hann með sjóinn á bak við sig. Í hægri hendi heldur hann á stórri kælitösku með bláu loki og hefur staflað á að giska tíu stráhöttum með bleikri slaufu á höfðið. Hann býður kalda drykki og höfuðföt til sölu. Röddin er djúp, lág og syngjandi, nánast seiðandi. Svitinn drýpur af langleitu andlitinu; hann horfir hlutlaus fram fyrir sig, hvítan í augunum er rauðsprengd.

Mamma, ætlarðu ekki að kaupa eitthvað? heyrir hún út undan sér.

Nei, segir hún og heyrir sjálf hvernig hún þvingar röddina til að hljóma eðlilega.

En sérðu ekki hvað hann er þreyttur?

Ef ég kaupi af honum þarf ég að kaupa af öllum.

Öllum hverjum, mamma? Það er enginn hérna nema hann.

Hann segir auðvitað hinum. Að við kaupum, segir hún og notar ósjálfrátt sama tón og Gunnar Bjarni þegar hann sagði sömu setninguna, nánast orðrétt, við hana fyrr um morguninn meðan krakkarnir tipluðu skrækjandi yfir heitan sandinn til að kaupa sér ís í íslúgunni og brenndu sig á iljunum á leiðinni. Hún þóttist horfa einbeitt á eftir þeim þegar hann sagði að ströndin moraði svoleiðis í sölumönnum og að hún yrði að forðast augnsamband við þá eins og heitan eldinn.

 Sölumennirnir voru í síðum kuflum, ýmist hvítum eins og eini skýhnoðrinn á himni eða í skærum litum sem mynduðu ævintýraleg munstur. Sumir seldu drykki, aðrir hatta, einhverjir strandteppi eða pils. Síðustu daga höfðu þau varla getað opnað augun án þess að ágengur sölumaður vomaði yfir þeim svo þau höfðu brugðið á það ráð að fara lengra upp með strandlengjunni þar sem var færra fólk og þar af leiðandi færri sölumenn.

Ég kaupi samt af honum! Borga þér heima, mamma.

Fríða rýkur til, grípur strandtöskuna og rótar eftir evrum, fyrr en varir er hún búin að kaupa sér bæði stráhatt með fölbleikri slaufu og kalt sítrónugos í áldollu. Hún skellir hattinum ofan á þykka gulllokkana og brosir, öll svo fallega ólívubrún og freknótt á nefbroddinum. Síðan opnar hún dolluna með háu hvissi og hallar undir flatt. Taktu mynd af mér, mamma! skipar hún kjassmælt.

Hún gegnir dóttur sinni. Teygir sig í símann sem liggur djúpt ofan í strandtöskunni, undir nærfötum, krakkasólarvörn númer 50 og bronsaðri sólarvörn númer 30, blæs af honum ósýnilegan sand og biður brosandi dóttur sína um að brosa svo brosið gleikkar enn frekar á hraustlegu andlitinu

Verum báðar á myndinni! biður Fríða svo hún hallar sér upp að henni, finnur heita og ilmandi húð hennar upp við sína og brosir líka að símtækinu.

Sís!

 

 

Hvar fékkstu þennan hatt, Fríða?

Ég keypti mér hann.

Hvað varstu að hugsa? spyr hann og beinir augum sínum að henni í stað sökudólgsins, dóttur þeirra. Í rómnum býr lítilsvirðing, einhver myndi segja fyrirlitning.

Ég var ekki að hugsa neitt, segir hún örg. Fríða bara keypti hattinn.

Þú áttir að hafa vit fyrir henni, hnussar í honum áður en honum verður aftur litið á Fríðu og segir byrstur: Fríða, þetta er álíka gáfulegt og að fara með sykraðan kleinuhring út á tún í ágúst.

Hvað meinarðu? spyr hún svo sakleysislega að það jaðrar við að vera ögrun.

Ég meina bara það sem ég segi, ástin. Ef þú ferð með sykur út í sólina koma allir geitungarnir.

Þær horfa þegjandi á hann þar sem hann hvílir í eigin öryggi. Með samskonar gylltan bjarma í hárinu og Fríða, sólbrúnn í framan en hvítur á kroppinn, í rauðri sundskýlu með breiðan brjóstkassa og stælta fætur í strandsandölum úr leðri. Hann elskar okkur, hann er bara þreyttur á að þurfa að gæta okkar öllum stundum, hugsar hún með sér og undrast um leið eigin friðþægingu.

Svona, svona, kerlurnar mínar, ekki vera leiðar, ég er bara að hafa vit fyrir ykkur svo við lendum ekki í tómu tjóni, segir hann þá, ólíkt glaðlegri en augnabliki áður og horfir ástríkur á þær.

Auðvitað erum við leiðar. Þú varst að líkja fátækum manni við geitung! segir dóttir hans reið.

Nei, elskan, hann var ekki að því, ekki beint, heyrir hún sjálfa sig segja. Hann var bara ... já, bara, auðvitað viljum við fá smá frið hérna, það er stöðugt verið að reyna að selja okkur eitthvað.

Já, hlustaðu á mömmu þína, krúttið mitt, segir hann kæruleysislega, vindur sér að sjónum og hrópar: Tommi, komdu, þú mátt ekki fara svona langt út!

Hann snýr sér aftur að þeim og segir: Heyrið þið, við skulum biðja konurnar hérna að taka af okkur mynd þegar Tommi kemur upp úr. Mig hefur alltaf langað í mynd af okkur öllum saman á sólarströnd. En þig, Sigga?

Já, segir hún holri röddu og fylgist með syni sínum brjótast í gegnum öldurnar upp úr sjónum. Endilega, elskan.

Hún vefur handklæði utan um mjóan, blautan kroppinn meðan Tommi ýkir skjálftann í tönnunum og Gunnar Bjarni rabbar á bjagaðri þýsku við konurnar undir næstu sólhlíf sem taka vel í allt saman og hlæja af ánægjunni einni saman yfir að geta gert þeim þennan greiða, önnur löng og grönn í neongrænu bikiníi, hin örlítið þybbin í ferskjubleikum sundbol. Báðar frá Suður-Þýskalandi, segja þær, báðar með hatt sem þær höfðu keypt af sölumanninum eftir að hafa spjallað daðursfullar en samt yfirlætislegar við hann um stund.

Augnabliki síðar sitja þau saman í þvögu. Hún með Tomma í handklæði á milli læranna, Gunnar Bjarni með aðra höndina utan um hana en hina utan um Fríðu sem felur ber brjóstin með handklæði og grettir sig í myndavélina.

Sís!

 

 

 

Helber ósvífni að selja fólki að ströndin sé í göngufæri við miðbæinn, tilkynnir Gunnar Bjarni svo hátt og skýrt að fólkinu á strætóstoppistöðinni verður litið á hann þó að það skilji ekki orð. Ítalskar húsmæður með þreytt en sæl börn, hungraðir sölumenn sem slæddust yfir hafið frá Afríku og sitja í vegkantinum í hverfulum skugga frá þurrum runna.

Hún þegir þó að hún sé sammála honum. Hún hefði aldrei komið hingað hefði hún bara vitað. Hvað? spyr hún sjálfa sig. Hvað hefði ég svo sem átt að vita?

Henni gefst ekki færi á að svara sjálfri sér því Tommi þarf að pissa. Hann grípur um klofið og horfir biðjandi á hana.

Ekki núna! andvarpar hún. Strætóinn nálgast óðfluga, loksins eftir fjörutíu mínútna bið undir steikjandi hádegissólinni. Ef hún fer með hann afsíðis missa þau pottþétt af vagninum sem er yfirleitt svo troðinn að þeim líður eins og sardínum í dollu, fólk þjappar sér saman svo það sé hægt að loka hurðinni.

Hún treystir hvorki Gunnari Bjarna né Fríðu fyrir Tomma í troðningnum innandyra. Á leiðinni út eftir hafði hún ríghaldið í hann til að missa ekki sjónar af honum og hætta á að hann skolaðist út með mannfjöldanum á rangri stoppistöð. Þær eru furðu strjálar á þessari leið þó að strætisvagninn sé að minnsta kosti þrjátíu mínútur niður í bæ, ef hann bilar ekki eins og síðast, þá gæti ferðin orðið helmingi lengri.

Hana sundlar, hádegishitinn er allt að því óbærilegur á þessari ílöngu umferðareyju við rykuga hraðbrautina þar sem þau hírast öll, andspænis nokkrum húsum með lokaða glugga í skjóli hárra veggja, og þurfa að gæta að sér til að hrasa ekki út í umferðina.

Fólkið flykkist eins og feit slanga að strætisvagninum þegar hann stoppar. Gunnar Bjarni og Fríða þröngva sér fimlega í gegnum þvöguna þó að þau burðist með allt stranddótið; vindsæng, handklæði, fötur og skóflur, sólarvörnina, sólhlíf og sundföt. Þau treysta á hana að koma sér og Tomma inn í sardínudósina.

Mér er mál að pissa! kveinar hann.

Ekki núna, Tommi. Þú verður að halda í þér.

En ég pissa á mig!

Nei, elskan, þú hlýtur að geta haldið í þér, segir hún og býr sig í huganum undir að hann eigi eftir að pissa á sig í troðningnum. En það er skömminni skárra en að bíða eftir næsta strætó, óvarin í fjörutíu stiga hita.

Í sömu andrá finnur hún hönd hans skreppa úr sinni og hann smeygir sér í gegnum óteljandi rassa og læri, út úr barningnum í öllu þessu löðursveitta fólki og upp að næsta runna.

Óttinn læsir sig um hana eins og ískristallarnir sem frystu stelpuna í uppáhaldsteiknimyndinni hans, Frozen. Andsetin af adrenalíni hrindir hún frá sér konum og körlum, berst í gegnum straum af kæfandi þungum líkömum, og sleppur loks út, til hans sem stendur sæll og sprænir á dauðan runnann.

Sigga! heyrir hún Gunnar Bjarna hrópa svo hátt að röddin brestur af reiði og örvæntingu. En það er of seint. Dyrnar lokast á hann þar sem hann stendur fyrir aftan á að giska tvær raðir af klístruðum manneskjum og þær klessast saman í hitanum. Vagninn keyrir af stað. Þau standa þarna eftir, ásamt nokkrum sölumönnum sem komust ekki með.

Mamma! Hvað eigum við að gera? hrópar Tommi og glennir upp augun um leið og hann gyrðir stuttbuxurnar upp um sig í hvelli. Hann ýkir dramatíkina í látbragðinu en á bágt með að leyna spennunni, þetta er jú spennandi, að týna pabba og Fríðu, ein á stoppistöð í útlöndum.

Ég veit það ekki, segir hún magnvana.

Hún getur ekki hugsað heila hugsun í þessum hita. Næsti strætó er ekki væntanlegur fyrr en í fyrsta lagi eftir fjörutíu mínútur og á hraðbrautinni eru engir leigubílar. Hún er bara með símann hennar Fríðu í strandtöskunni en sá er með íslenskt kort og þegar hún reynir að hringja í Gunnar næst aðeins samband við ítalska kvenmannsrödd sem segir eitthvað sem hún skilur ekki.

Mamma!

Já, elskan.

Viltu taka af okkur mynd! Svo pabbi og Fríða sjái okkur týnd.

Hann horfir vonglaður á hana sem hlær, þrátt fyrir allt, og strýkur á honum heitan kollinn. Ljóst hárstrý, stíft af sjávarseltu og sandi, yfir björtum, bláum augum sem eru alltaf þrungin eftirvæntingu, sama á hverju gengur.

Já, af hverju ekki, segir hún og finnur að hún á orðið erfitt með að tala í hitanum. Ef þú setur á þig sólhattinn.

Ókei, mamma!

Ókei. Ertu tilbúinn?

Já.

Sís!

 

 

 

Gunnar Bjarni hafði sagt eitthvað um ítök mafíunnar í strætókerfinu fyrsta daginn þeirra hérna. Hún hafði varla lagt við hlustir, rámar bara óljóst í eitthvert taut á þá leið. Nú gæti hún sem best trúað að hann hafi hitt naglann á höfuðið. Hvergi bólar á næsta strætisvagni. Mistrið bærist úti við enda vegarins eins og gegnsær eldur. Bílarnir sem þjóta fram hjá og þyrla upp ryki eru ýmist fólksbílar, vöruflutningabílar eða túristarútur.

Tíminn stendur í stað, þau eru löngu búin með löggina úr vatnsflöskunni, auralaus því Fríða hafði notað síðasta klinkið í strandtöskunni þegar hún keypti hattinn og gosið. Hún gerir fastlega ráð fyrir að komast upp með að smygla þeim inn í strætóinn, ef hann kemur þá á annað borð. Það getur enginn heilvita maður fundið út hverjir hafi borgað fargjaldið í þessari síldartunnu.

Mamma, ég er þyrstur?

Ég á ekki meira að drekka, elskan.

En ég er að deyja úr þorsta, segir Tommi veiklulega en áberandi leikrænn þegar hann tekur um kverkarnar og rekur út úr sér tunguna.

Þú verður að bíða, segir hún og fyllist kergju. Af hverju er Gunnar Bjarni ekki löngu kominn til baka á leigubíl? Þrjóskan í honum. En Fríða? Ætli hún sé að tuða í honum að hringja á bíl eða ...

Perdon!

Ha?

Í annað skipti sama daginn horfir hún í augun með rauðsprengdu hvítuna. Að þessu sinni er augnaráðið ekki hlutlaust heldur þrungið samúð. Maðurinn brosir vingjarnlega svo teygist á andlitinu og strekkist á háum kinnbeinunum þegar hann segir: Your boy! Water? Aqua?

Tommi er fyrri til að svara. Hann þrífur nánast flöskuna úr höndum mannsins og þambar vatnið. Gefur frá sér dýrslega stunu meðan hann teygar vökvann og gegnir með semingi þegar hún segir að nú sé komið gott, hann megi ekki klára vatnið frá manninum. Hún skilar flöskunni og brosir veiklulega í þakklætisskyni. Maðurinn bandar flöskunni hlæjandi frá sér, opnar kælitöskuna og réttir fram dollu með appelsínugosi. Það lifnar yfir Tomma en hún flýtir sér að segja: No, no! og opnar strandtöskuna til merkis um að þar leynist ekki svo mikið sem ein evra.

En maðurinn heldur áfram að brosa, eins og hann hafi gaman að öllu saman, og réttir Tomma samt sem áður dósina.

Okey, madam, segir hann og klappar honum á höfuðið. Little boy drink.

Sem litli drengurinn hennar gerir, vankaður og máttlaus í hádegissólinni sem verður heitari með hverri mínútunni sem líður.

Áður en hún veit af hefur hún útskýrt vandræði sín á brotakenndu stagli á ensku og þremur latínutungum. Hún lætur ímynduð varnaðarorð Gunnars Bjarna sem vind um eyru þjóta. Hann myndi sennilega segja henni að vera ekki svona græskulaus, ein á umferðareyju með hópi ókunnugra sölumanna í örvæntingarfullri leit að óvæntri gæfu. Einhverju, já, bara einhverju sem gæfi þeim eitthvað til að brauðfæða sig og sína – eins og fjölskyldurnar, þrjár konur og hóp barna sem hafa búið sér ból við lestarstöðina og halda heimili í afgirtum garðskika.

Félagar hans þyrpast saman; sjö dökk höfuð, einn röndóttur bolur og sex kuflar með litríkum mynstrum sem minna bæði á dýr og náttúru, sjö djúpar raddir. Tveir þeirra eru með farsíma, þeir reyna báðir að hringja í númerin sem hún gefur þeim upp en án árangurs. Sama óskiljanlega röddin og áðan heyrist og segir eitthvað sem hún skilur ekki, því síður útskýringar mannanna.

Hana langar mest til að leggjast í jörðina, lygna aftur augunum og renna saman við hitann eins og manneskja sem þráir í uppgjöf að verða eitt með hríðarbyl. En Tommi er með henni, hún verður að finna út úr þessu og það sem fyrst. Áður en hann verður svo vankaður að hann ranglar út í umferðina án þess að gæta að sér.

Sjáðu, hvað maðurinn gaf mér!

Hvað, elskan? spyr hún og deplar augunum hratt.

Vinaband og sjáðu, hann setti þrjú dýr á það. Eitt ljón, sko, frosk og líka fíl.

Hann teygir bústinn, sólbrúnan handlegginn fram. Um úlnliðinn er búið að binda marglitt band og úr því hanga þrjú agnarsmá, silfurlit dýr.

Tommi brosir eins og sólin og lítur glaður á einn sölumannanna, þessi er lágvaxnari en hinn, þéttari, með strákslegt andlit og glettið augnaráð. Hann blikkar hana óræður og hún fer hjá sér. Hann lítur loks undan þegar áttundi maðurinn kemur aðvífandi og tilkynnir eitthvað sem fær hina til að andvarpa þungt og banda höndunum hver framan í annan. Það er engu líkara en þeir hafi fengið vondar fréttir.

Madam, you come with us? We walk. To City, spyr þá dimm rödd og rauðbiknu augun horfa spyrjandi á hana.

No, segir hún og flissar taugaveikluð um leið og hún gerir honum skiljanlegt að þau mæðginin ætli að bíða eftir strætisvagninum.

No bus.

No bus?

Not today, segir maðurinn og útskýrir að kunningi hans hafi fengið veður af óvæntu verkfalli strætisvagnastjóra.

Líf hennar virðist hafa umbreyst í martraðarkenndan farsa. Hvernig getur staðið á að þau mæðginin standi hérna umkomulaus í þessum fáránlegu aðstæðum? Hafði Gunnar Bjarni þá rétt fyrir sér þegar hann sagði að samgöngurnar hérna væru handónýtar?

Hún er hætt að nenna að mótmæla öllu því sem hann fárast yfir. Lætur það sem vind um eyru þjóta, bíður yfirleitt eftir að hann róist smám saman eins og ungbarn með óróa í maganum, brosir laumulega að honum, nema þegar hún berst við kökkinn, það gerist stundum og þá laumast hún afsíðis.

Hitinn magnar upp blóðþrýstinginn og bræðir burt þolinmæðina. Kannski er hún að byrja að fá sólsting, stálkalt hatur spennir upp líkamann og festir hann upp á þráð. Í draumkenndri hitamóðunni hatar hún skyndilega sjálfa sig fyrir að vera alltaf reiðubúin að skilja. Innikróuð í lífi sem gæti verið svo gott en er það af einhverjum ástæðum ekki. Framandi tilfinningin virðist raunverulegri en allt annað. Hún ætlar ekki að lyppast niður. Hún ætlar að hata og finna leið út úr þessu öllu saman.

Komdu, Tommi, segir hún ísköld. Við ætlum að labba samferða mönnunum aftur niður í bæ.

Veit pabbi það? spyr hann hikandi.

Ég treysti þeim betur en pabba þínum, segir hún og veit að einhvern tímann á hún eftir að biðja Tomma fyrirgefningar á óþarflega ónotalegri athugasemdinni. Á svo mörgu. Jafnvel því að hafa stefnt lífi þeirra í voða – ef það verður þá ekki of seint. En ekki núna. Því núna er aðeins um tvennt að velja og ef hún gengur ekki af stað deyr hún. Svo mikið veit hún.

Mamma!

Já?

Viltu taka mynd af mér með mönnunum? Svo pabbi viti að þeir hafi bjargað okkur.

Já, segir hún um leið og Tommi hendist til félaganna sem eru byrjaðir að tína saman föggur sínar.

Sís, mamma, sís!

Sís!

 

 

Hún fylgir í humátt á eftir þeim og horfir á son sinn lúta fram yfir höfuð hávaxna mannsins sem heldur á honum á háhesti, álíka léttstígur og hann er alvörugefinn til augnanna. Hvítur kuflinn bærist í langþráðri hafgolunni sem lætur loksins á sér kræla. Sandalinn á hægri fæti særir á henni hælinn en hún þorir ekki úr honum af ótta við að stíga á glerbrot eða dautt skordýr í skraufþurrum vegkantinum.

Mennirnir eru ólíkir innbyrðis. Létt er yfir þeim breiðleita og stutt í kímnina hjá þeim hávaxna, hinir láta minna fyrir sér fara en einn þeirra, ungur, kvikur maður, sá eini sem klæðist gallabuxum og strigaskóm, horfir stöðugt á hana en lítur snöggt undan um leið og hún mætir augnaráði hans.

Hún gætir þess að horfa í aðra átt og skyndilega eru þau komin undir brú með hraðbrautina yfir höfði sér. Umferðardynurinn minnir á stórfljót í leysingum, hlandlyktin er of stæk til að hún geti dregið andann. Þarna sér þau enginn nema róninn sem húkir dormandi uppi við litríkar grafitímyndirnar á veggnum.

Hvað er hún að hugsa að ana svona út í óvissuna með Tomma? Þau eru algjörlega varnarlaus með þessum mönnum. Þeir gætu tekið hana og nauðgað henni fyrir framan hann. Drepið hana og selt barnaníðingum Tomma. Hafði Gunnar Bjarni líka rétt fyrir sér þegar hann sagði eitt sinn að það yrði bara að segjast að sumar konur gætu sjálfum sér um kennt að vera nauðgað þegar þær kæmu sér í glæfralegar aðstæður?

Hann á eftir að húðskamma hana fyrir tiltækið ef hún kemst lifandi frá því. Og hvað með það? Hann er sítuðandi.

Og Fríða skammar hann. Og þau tuða hvort í öðru þangað til hún slæst í leikinn og segir eitthvað sem verður til þess að þau hæðast bæði að henni.

Hún gengur greiðar og starir á Tomma á öxlum mannsins eins og augnaráðið eitt geti bægt frá honum hvers kyns hættu.

Stundum vildi hún óska þess að fjölskyldulíf hennar væri meira í líkingu við vinnustað hennar. Spítalaganginn þar sem hún hlúir að sjúklingum og það að sýna umhyggju er nóg. Þar sem er ástæðulaust að flækja málin frekar. Tilverurétturinn felst í því einu að hjúkra náunganum. Engum finnst hún vitlaus, hallærisleg eða ekki með á nótunum eins og feðginunum virðist svo oft finnast. Þar sér fólk heilsteypta konu sem hefur ráð undir rifi hverju. Auðvitað eru sjúklingarnir jafn misjafnir og þeir eru margir. En innan um þá getur hún verið hún sjálf.

Sjúklingarnir sjá, segir hún við sjálfa sig þegar þau stíga út úr brúargöngunum og finnur skæra birtuna særa sjáöldrin. Þeir sjá konuna sem arkar nú með fram hraðbrautinni og horfir á hálfsofandi son sinn rugga á öxlum ókunnugs manns.

Þessi kona á hvergi heima, hugsar fólkið sem þýtur fram hjá í bílunum sínum með loftkælinguna í botni. Ef það veitir henni þá meiri athygli en næsta pálmatré, löngu orðið samdauna öllu heimilislausa fólkinu sem ráfar um göturnar. Jú, hún er ljós á hörund. Það undrast það kannski. Að kona ljós á hörund og drengurinn hennar slæpist um með hópi dökkra karlmanna.

Fyrsta kvöldið þeirra í borginni hafði hún séð eitthvað hvítt bærast í nóttinni. Eitthvað í líkingu við anda virtist svífa í skininu frá daufum lömpum í þröngri götu sem lá niður úr fjallinu. Þegar nær dró sá hún að það voru tveir menn í hvítum kuflum. Svo léttstígir að þeir virtust ekki af þessum heimi. Svo hurfu þeir inn í herbergi með slá fyrir dyrum, vistarverur sem minntu á helli, og þaðan barst ljúf angan af vel krydduðum mat. Hún heyrði óm af mörgum röddum, grát í ungbarni.

Höfuðið er óbærilega heitt. Hún grípur þvalan bol af Fríðu og bindur hann um höfuðið. Andar að sér sjávarloftinu við mengaða hraðbrautina og brosir að sjálfri sér. Þrátt fyrir allt líður henni bara bærilega. Allt um kring eru fjöll og sjór og náttúra. Eins og á Vestfjörðunum þegar hún var unglingsstelpa að þvælast um með eldri strákum og stelast til að kveikja sér í sígarettu og súpa á einhverju sterku sem fékk hana til að elska einn þeirra á alveg nýjan hátt.

Þá beið lífið hennar og hún var meira en til í að stíga inn í það, hvert á land sem væri, og þramma áfram í dásamlega kæruleysislegri blindi. Eins og núna, kannski, hugsar hún með sér, flissar taugaveikluð og furðar sig á að langa allt í einu í sígarettu eftir bráðum átján ára bindindi. Hún hefur ekki tekið smók síðan hún varð ólétt að Fríðu og missti yfirráðaréttinn yfir eigin líkama.

Fríða hafði brosað með öllum líkamanum til ungs manns sem reyndi að selja henni skartgripi og sjálfan sig um leið annað eða þriðja kvöldið þeirra í Cagliari.

Vertu ekki svona vitlaus, Fríða mín, hafði pabbi hennar sagt, góðlátlega kenndur eftir hálfa flösku af rauðvíni og staup af grappa. Hann er svona við allar stelpurnar.

Þú veist ekkert um það.

Ég var einu sinni strákur.

Og hvað með það! Byrjaðirðu þá bara með mömmu af því að hún var sú eina sem vildi þig?

Þær vildu mig allar.

Og kannski var strákurinn í alvöru skotinn í mér. Kannski er þetta ást við fyrstu sýn!

Vertu ekki svona barnaleg, elskan mín.

Vert þú ekki svona mikill plebbi.

Sjáðu þarna!

Sjá hvað?

Þarna á veggnum, Fríða. Hvað er búið að krota á hann?

Nou ... ég hef ekki hugmynd um það.

Nous vous haïssons.

Og hvað!

Við hötum ykkur, sagði pabbi hennar. Þetta þýðir það, á frönsku. Þú veist að flestir þessir strákar koma úr fyrrum nýlendum Frakka.

Hvað á ég að vita?

Spurðu sjálfa þig, sagði hann glaðhlakkalegur svo Fríða arkaði í fússi á undan þeim en hún hafði sjálf staldrað við og rýnt í orðin á fornum veggnum sem var gulleitur í skininu frá götuljósunum. Þegar Rómverjarnir höfðu byggt sitt ból í þessari borg var hún þegar orðin forn. Þarna höfðu einir fólksflutningar tekið við af öðrum síðan löngu fyrir Krist. Löngu áður en það varð að vana að tylla líkneski af Maríu mey upp á grjótsyllu umkringt kertum og reykelsum, eins og þarna efst upp í horninu á húsinu næst veggnum.

Hljómmikið flaut í vöruflutningabíl hrekur hana upp úr hugsunum sínum. Skyndilega eru þau komin langt áleiðis, hún hefur svifið áfram eins og í draumi eða öllu heldur hitaóráði. Gengið án þess að taka eftir skrefunum, því síður sársaukanum í hælnum. Henni er mál að pissa en hún kann ekki við að biðja þá um að stoppa. Tommi virðist vera sofnaður á öxlum mannsins.

Fyrir sex dögum yfirgaf hún heimili sitt í Grafarvogi. Gætti þess að læsa og setja þjófarvörnina á. Það var ekki laust við að það væri tregi í henni þegar hún lokaði útidyrahurðinni. Úti var notalega haustlegt um að litast þó að það væri ennþá bara ágúst og eitt augnablik freistaði það hennar meira að hafa það kósí heima í langþráðu fjölskyldufríinu en að æða eitthvað af því að Gunnar Bjarni hafði rambað á þessa ódýru flugmiða. Bara ef hún hefði vitað að hún ætti aldrei eftir að snúa aftur heim.

Hún er ekki lengur sú sem fór og gæti því aldrei séð heimili sitt aftur sömu augum. Ég á hvergi heima, hvíslar hún að heitri golunni sem feykir orðunum út í heiminn. Áður en hún veit af hefur hún staldrað við, þrifið símann upp úr strandtöskunni og beint honum að sjálfri sér.

Hún hefur aldrei áður tekið sjálfsmynd en skyndilega finnst henni eins og hún verði að taka mynd af sjálfri sér.

Til að staðsetja mig, segir hún og furðar sig á ókunnugleikanum í eigin rödd. Strýkur hárið aftur fyrir eyrað og hvíslar móð: Sís!

 

 

Lögreglan hlaut að stöðva þau. Það gekk ekki, í augum yfirvaldsins, að ljós kona og ljós drengur væru að þvælast um borgina með dökkum karlmönnum.

Henni til ósegjanlegs léttis létust þeir ekki sjá velvildarmenn hennar, þeir fengu að halda áfram ferð sinni með bögglana án frekari afskipta. Hún sér þá hverfa fyrir horn, þau voru komin inn í borgina, héðan ætti hún satt að segja að rata að gistiheimilinu uppi á fjallinu.

En hún er lyklalaus og verður einhvern veginn að ná í Gunnar Bjarna og Fríðu.

Lögreglumennirnir eru vinsamlegir en um leið föðurlegir, viðmót þeirra líkt og þeir hafi rétt í þessu bjargað henni úr miklum háska. Þeir gantast við Tomma, róta í hárinu á honum, segja að mamma hans sé sæt.

Það er léttir að setjast inn í loftkældan lögreglubílinn. Tommi lyftist allur upp, nývaknaður og hinn hressasti eftir alla ævintýramennskuna. Hún svarar með einsatkvæðisorðum og reynir að komast upp með að segja sem minnst, finnst á einhvern öfugsnúinn hátt að helst hefði hún viljað halda áfram að vera týnd.

Á lögreglustöðinni tekur vel snyrt, brosmild kona í fallegu sumardressi á móti þeim og aðstoðar þau við að hringja.

Gunnar Bjarni svarar ögn skjálfmæltur. Ég var orðinn svo hræddur! segir hann lágt. Þetta er svo ólíkt þér.

Mér! hváir hún en afræður að segja ekkert meira. Hún segir heldur ekkert þegar hann birtist í dyrunum með dóttur þeirra rauðeygða á hælunum.

Elsku Tommi! hrópar Fríða og faðmar bróður sinn en pabbi hans á athygli hans óskipta.

Sjáðu, pabbi, við mamma vorum týnd! segir Tommi og þýtur í fang pabba síns um leið og hann veifar farsímanum framan í hann. Á skjánum er mynd af honum sjálfum ásamt hópi karlmanna sem veifa allt hvað af tekur að símanum eins og þeir vilji senda umheiminum glaðlega kveðju.

Hann situr sjálfur á öxlum þess hávaxnasta sem dregur annað augað í pung og brosir til konunnar með símann.

Skemmtileg mynd, segir pabbi hans ringlaður og lítur á hana sem brosir. Hvað annað getur hún gert? Þau eru í fríi.

Nú skulum við fá okkur eitthvað ærlegt í gogginn, segir Gunnar Bjarni, grípur Tomma fangið og umvefur þau öll löngum, þykkum örmum sínum. Þrykkir henni upp að sér svo börnin klessast á milli þeirra. Hann er svo móður af tilfinningasemi að hún finnur andardrátt hans leita upp í nef sitt og kúgast í hitanum. Heimur hennar er allur ennþá á sínum stað.

Pizzu! hrópar Tommi.

Pizzu og ís, sönglar pabbi hans og þerrar vot augun með handarbakinu. Því ég elska ykkur svo mikið.