Hvað kemur á eftir póstmódernismanum?

 – bókmenntir og listir 2000-2025

 

„Ég er þreytt á því að upplifa sögulega atburði,“

skrifar Embla Rún Halldórsdóttir, ritstýra Íslensku leiðarinnar – tímarits stjórnmálafræðinema við Háskóla Íslands í grein í blaðinu frá árinu 2022.[1] Embla vísar í hin fornu kínversku áhrínsorð eða álagadóm; „megir þú upplifa sögulega tíma“ þegar hún bendir á að flestar kynslóðir hafi í raun lifað á sögulegum tímum, upplifað eða orðið vitni að atburðum sem ritað er um í sögubókum. Helsti munurinn að hennar mati er fréttaflutningurinn, að með tilkomu samfélagsmiðla[2] hafi fólk aðgang að stöðugu streymi upplýsinga, ekki þurfi lengur að bíða eftir að dagblöð komi úr prentsmiðjum inn um bréfalúgur eða að fréttatími hefjist í sjónvarpinu. Embla tekur ágætt dæmi um hvernig hægt var að fylgjast með streymi frá innrás fylgismanna Donalds Trump í þinghús Bandaríkjanna í Washington eða frá loftárásum Rússa úr sprengjuskýlum í Úkraínu.[3]

Fyrsti fjórðungur 21. aldarinnar hefur svo sannarlega verið sögulegur og er skemmst að minnast hve óþarflega oft almenningur á Íslandi var minntur á að „við lifðum jú á fordæmalausum tímum“. Ýmislegt hefur vissulega dunið á og má þar helst nefna bankahrun árið 2008, eldgos í Eyjafjallajökli 2010 og á Reykjanesi frá árinu 2021, kórónuveirufaraldur 2019-2023 að ógleymdum stríðsátökum og öfgakenndu veðurfari sem kennt er við loftslagsbreytingar af manna völdum. Fæst af þessu er fordæmalaust í sögu mannkynsins og enn ónefnt það fyrirbæri sem er það í raun: samfélagsmiðlar.

Upphaf samfélagsmiðla má rekja til ársins 1997 þegar miðillinn SixDegrees var stofnaður og um 2% mannkyns voru tengd veraldarvefnum. MySpace kom til sögunnar árið 2003 og fimm árum síðar var fjöldi notenda hans komin yfir 70 milljónir. Árið 2004 var svo sett á laggirnar innri vefur meðal nemenda Harvard-háskóla þar sem þeir gátu tengst hver öðrum og sent skilaboð sín á milli. Í september 2006 gátu allir sem náð höfðu 13 ára aldri með gilt tölvupóstfang fengið aðgang að vefnaði þessum sem þekktur er í dag undir nafninu Facebook. Árið 2010 voru notendur orðnir 500 milljónir. Í kjölfarið fylgdu Twitter (2006), Instagram (2010) og Snapchat (2011).[4] Hinu kínverska TikTok, eða Douyin, var svo komið á fót í september 2016 og hefur árið 2025 laðað til sín 1590 milljónir mánaðarlega notendur á heimsvísu sem fimmti vinsælasti samfélagsmiðill heims. Facebook hefur enn forystu með 3070 milljónir og YouTube er með 2500 milljónir notenda. Whatsapp og Instagram deila 3. og 4. sætinu með 2000 milljónir notenda hvor.[5]

Í hugleiðingu um áhrif samfélagsmiðla segir Freyja Þórsdóttir nútímann geyma „ýmis dæmi um það hvernig rótgrónar mannlegar þrár fái yfirborðslega svölun í tölvuvæddri tilveru. Aldrei hefur verið auðveldara að sía út óþægindin og ófyrirsjáanleikann sem bein mannleg samskipti krefjast.

[6] Athyglishagkerfi samfélagsmiðlanna gengur út á að halda athygli fólk sem lengst við skjáinn á kostnað raunverulegrar tengingar en auka um leið einmanaleika þeirra sem nota þá mest. „Efni sem fangar athygli hratt styrkist í sessi, öðlast segulkraft og dregur til sín enn meiri athygli. Efni sem hefur háværa nærveru sigrar efni sem kvíslar og öfgar eru því sigurstranglegar í keppninni um athyglina.“[7]

Lengi hafa þeir, sem tóku þátt í hönnun og þróun samfélagsmiðla, varað við gríðarlega skaðlegum áhrifum þeirra. Tristan Harris, fyrrverandi verkfræðingur gjá Google, segir hvatann á bak við athyglishagkerfið hafa skilað okkur truflaðra, klámvæddara og skautaðra samfélagi þar sem fíkn er meira áberandi en áður. Töfralausn Zuckerbergs við vandanum sem við blasir og tengist helst hrakandi geðheilsu og einmanaleika ungmenna er einföld: Gervigreindarvinur sem sér okkur fyrir nærveru og andlegri næringu.[8]

Þá sannast hið fornkveðna og fornkínverska: Megir þú upplifa sögulega tíma.

 

Pterourus bjorkae

Á tímabilinu sem hér um ræðir hefur íslenskt menningarlíf blómstrað af svo gríðarlegum krafti að það má nánast kallast fordæmalaust í sögu þjóðarinnar. Allt fram á síðari hluta 20. aldar má segja að Ísland hafi átt tvo heimsþekkta listamenn: Snorra Sturluson (1179-1241) og Halldór Kiljan Laxness (1902-1998). Margir hafa náð góðum árangri á ýmsum sviðum en fleiri listamenn sem fangað hafa athygli og aðdáun milljóna hafa komið fram á sl. 40 árum en nokkru sinni áður í Íslandssögunni.

Fræjum var sáð þegar Mezzoforte varð fyrst íslenskra hljómsveita til að koma lagi inn á vinsældalista á erlendri grund með útgáfu lagsins Garden Party árið 1983, lagið komst í 17. sæti breska smáskífulistans það ár.[9] Fimm árum síðar kom hljómsveitin Sykurmolarnir (Sugarcubes) breiðskífunni Life‘s too Good í 14. sæti breska breiðskífulistans. Platan fékk frábæra dóma í helstu tónlistartímaritum heims og náði einnig góðri sölu í löndum eins og Svíþjóð, Bandaríkjunum og Kanada. Heildarsala plötunnar var nærri einni milljón eintaka sem var það mesta sem íslensk hljómsveit hafði náð fram til þessa.[10] Hljómsveitin var skipuð miklu hæfileikafólki sem átti eftir að ná langt í ýmsum listgreinum eftir að hljómsveitin hætti árið 1992.

Er þar fyrsta að telja söngkonuna, tónskáldið, framleiðandann, plötusnúðinn, umhverfisverndarsinnann og tískumógúlinn Björk Guðmundsdóttur sem varð alþjóðleg ofurstjarna í kjölfarið á útgáfu sinnar fyrstu sólóplötu, Debut, árið 1993. Síðan þá hafa plötur hennar selst í milljónum eintaka, hún hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna auk þess sem fiðrildategund hefur verið nefnd eftir henni, Pterourus bjorkae.[11]

Bragi Ólafsson, bassaleikari Sykurmolanna, hefur átt farsælan feril sem skáldsagnahöfundur og ljóðskáld, Margrét Örnólfsdóttir, hljómborðsleikari, sömuleiðis sem tónskáld, kvikmyndagerðarmaður, handritshöfundur og skáldsagnahöfundur, trommarinn Sigtryggur Baldursson hefur átt vinsældum að fagna, meðal annars sem sveiflukóngurinn Bogomil Font.

Í gegnum þær dyr sem Sykurmolar og Björk opnuðu á 9. og 10. áratug 20. aldar gekk síðan hljómsveitin Sigur Rós þegar önnur stóra plata hljómsveitarinnar, Ágætis byrjun, kom út árið 1999. Allar götur síðan hefur hljómsveitin gefið út plötur sem seljast í milljónum eintaka og fyllt tónleikahallir um heim allan, syngjandi ýmist á íslensku eða á persónulegu, heimagerðu tungumáli. Það þykir því ekki tiltökumál nú til dags að heyra lag með íslenskum tónlistarmönnum á borð við OMAM, Kaleo eða Laufeyju Lín í sjónvarpsþætti eða kvikmynd á Netflix.

Sú síðastnefnda fyllir árið 2025 virtustu tónleikahallir heims á borð við Madison Square Garden í New York og skartar 16,4 milljónum hlustenda á Spotify (rúmlega sex sinnum fleiri en Björk) aðeins fimm árum eftir að hún sendi frá sér sitt fyrsta lag – einmitt á TikTok.

Kvikmyndagerð hefur að sama skapi verið í miklum blóma á síðustu áratugum. Kvikmyndaleikstjórar á borð við Benedikt Erlingsson, Hlyn Pálmason, Grím Hákonarson og Rúnar Rúnarsson hafa notið mikillar velgengni á alþjóðavettvangi. Kvikmynd Benedikts, Hross í oss, fékk m.a. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2014, kvikmynd Gríms, Hrútar, fékk 29 alþjóðleg verðlaun árið 2016 auk þess sem kvikmyndin var endurgerð í Ástralíu með stórstjörnunni Sam Neil í aðalhlutverki. Þá sópaði kvikmyndin Hjartasteinn í leikstjórn Guðmundar Arnar Guðmundssonar til sín 45 alþjóðlegum verðlaunum árið 2017.[12] Íslenskar sjónvarpsþáttaraðir á borð við Kötlu og Ófærð hafa enn fremur náð talsverðri útbreiðslu á efnisveitunni Netflix. Leikstjóri Ófærðar, Baltasar Kormákur, hefur haslað sér völl sem kvikmyndaleikstjóri í Hollywood og skipað þar stjörnum á borð við Mark Wahlberg, Denzel Washington og Idris Elba fyrir verkum.

Það er því ljóst að kvikmyndagerð er orðin að gríðarlega mikilvægum þætti í íslensku atvinnu- og menningarlífi og greinin hefur vaxið hratt. Árið 2008 var velta í framleiðsluhluta greinarinnar um 4,5 milljarðar en árið 2024 er áætlað að veltan hafi verið um 35 milljarðar sem nemur nær 700% veltuaukningu.[13] Ferðamálastofa hefur áætlað að tæplega 40% ferðamanna sem hingað koma hafi fengið hugmyndina vegna þess að þeir sáu íslenskt landslag í kvikmynd eða sjónvarpsefni.[14]

 

Úr dufti í demanta

Það verður að teljast giska ólíklegt að Arnaldur Indriðason hafi gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar tilraun hans til að semja skáldsögu undir lok síðastliðinnar aldar hafði í för með sér. Menntaður sem sagnfræðingur hafði Arnaldur um árabil verið blaðamaður á Morgunblaðinu og helst þekktur fyrir að skrifa þar kvikmyndagagnrýni. Árið 1997 kom þessi fyrsta skáldsaga hans út og bar heitið Synir duftsins. Í titlinum er vísað til ljóðs Einars Benediktssonar, Norðurljós, þar sem byggt er á orðum Biblíunnar að maðurinn sé í raun duft eða aska á meðan jarðvistinni stendur og hin sanna tilvist taki við í guðs ríki eftir dauðann:

 

Veit duftsins son nokkra dýrðlegri sýn

en drottnanna hásal í rafurloga?

(Einar Benediktsson, Sögur og kvæði, 1897)

 

Þessi tilraun Arnaldar markar upphaf ákveðins blómaskeiðs í íslenskri skáldsagnagerð – blómaskeið glæpasögunnar sem gert hefur nokkra íslenska rithöfunda að metsöluhöfundum hérlendis sem erlendis, auk Arnaldar má í því samhengi nefna Yrsu Sigurðardóttur og Ragnar Jónasson. Þó að Arnaldur hafi ekki ætlað sér að skrifa glæpasögu[15] hefur hún að geyma margar af grundavallarbyggingareiningum þeirrar bókmenntagreinar.

Í upphafi sögunnar fremur vistmaður á geðsjúkrahúsi sjálfsmorð og um sama leyti brennur gamall grunnskólakennari inni á heimili sínu. Rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur Sveinsson og samstarfsfólk hans, Sigurður Óli og Elínborg, taka að sér rannsókn þessara mála. Rannsóknin leiðir í ljós að kennarinn hafði tekið þátt í tilraun vísindamanna með að gefa nokkrum vandræðaunglingum ólyfjan í formi lýsispilla í því augnamiði að kanna hvort þeir myndu standa sig betur í skóla undir áhrifum lyfsins. Vísindamaðurinn X gerir síðan tilraunir með að klóna drengina með óhugnanlegum afleiðingum og vekur sagan upp ýmsar siðferðislegar spurningum um það hvort maðurinn geti tekið sér slíkt guðlegt vald að ætla sér að skapa lífverur með klónun.

Þegar glæpasögurnar tóku að skipa sér fastan sess á metsölulistum bókaverslana upp úr aldamótunum kviknaði fljótt sú umræða að glæpasögur væru ómerkilegar „óæðri bókmenntir“. Þær væru byggðar á þekktum formúlum, persónurnar í sögunum væru klisjukenndar og listrænt gildi sagnanna væri afar takmarkað, þær væru ekki fagurbókmenntir. Þetta er ekki einhlítt og hefur því t.d. verið haldið fram að í bókum Arnaldar megi finna dýpri persónusköpun og sterkari tengsl við svokallaðar fagurbókmenntir en hjá mörgum öðrum höfundum. Í Sonum duftsins er Arnaldur t.d. sagður beita vísunum í ljóðlist svokallaðra þjóðskálda eins og fyrrnefndan Einar Benediktsson og Jónas Hallgrímsson til að dýpka boðskap og merkingu sögunnar. [16] Sagan vekur upp spurningar um skólakerfið og það hvaða aðferðum er beitt við að steypa þegna þjóðfélagsins í sama mót.

Allt frá útgáfu Sona duftsins hefur Arnaldur Indriðason verið einn söluhæsti rithöfundur í sögu þjóðarinnar. Bækurnar Mýrin (2000) og Grafarþögn (2001), sem báðar fjalla um Erlend Sveinsson, eru þar fremstar meðal jafningja en kvikmynd var gerð eftir þeirri fyrrnefndu í leikstjórn Baltasars Kormáks árið 2006. Fleiri vinsælar aðalpersónur hafa síðan litið dagsins ljós í glæpasögum Arnaldar og má þar helstar telja lögreglumanninn/-konuna Marion Briem, Konráð, Flóvent og Thorsson.

Einnig hefur Arnaldur sent frá sér verk sem byggja á íslenskri sögu og bókmenntum. Sögurnar um Flóvent og Thorsson gerast allar á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar en árið 2006 kom út skáldsagan Konungsbók sem segir frá æsilegri leit íslensks bókmenntaprófessors í Kaupmannahöfn og ungs lærisveins hans, 10 árum eftir lok seinni heimsstyrjaldar, að týndri örk úr hinu forna handriti Konungsbók eddukvæða.  Snýst atburðarásin m.a. um að örkin lendi ekki í höndum glæpamanna sem tengjast hinum gamla nasistaflokki í Þýskalandi, kunnuglegt stef úr kvikmyndinni Indiana Jones: The Raiders of the Lost Arc frá 1984. Í sögunni bregður höfundur aðeins á leik með því að láta tvær ónafngreindar aukapersónur koma fyrir sem lesandi skynjar að bera sláandi líkindi annars vegar við Indriða G. Þorsteinsson, rithöfund og föður Arnaldar, en hins vegar við Halldór Laxness. Af öðrum sögum Arnaldar sem ekki teljast til glæpasagna má telja Sigurverkið (2021), sem gerist við hirð Danakonungs í Kaupmannahöfn á 18. öld, og Ferðalok (2024), sem fjallar um síðustu daga þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar í sömu borg árið 1845. Óþarft er að telja upp öll þau verðlaun og vegtyllur sem Arnaldi hafa hlotnast fyrir skrif sín. Alls hafa bækur eftir Arnald selst í yfir 20 milljónum eintaka á heimsvísu.[17] Duftið breyttist í demant.

Rithöfundurinn og lögfræðingurinn Ragnar Jónasson hefur einnig gert hugverk sín að útflutningsvöru. Á vormánuðum 2025 stofnaði Ragnar framleiðslufyrirtækið Dimma Pictures í samstarfi við fjölmiðlafyrirtækið Stampede Ventures og framleiðandann John-Paul Sarni. Þetta er gert í framhaldi af samstarfi umræddra aðila við gerð sjónvarpsþáttanna Dimma sem skörtuðu sænsku skötuhjúunum Lasse Hallström og Lenu Olin í starfi leikstjóra og aðalleikkonu.[18] Þættirnir eru sem kunnugt er byggðir á bókum Ragnars um lögreglukonuna Huldu Hermannsdóttur sem – viti menn – rannsakar morðmál og glímir við persónulega djöfla.

En ef Arnaldur Indriðason er Kóngurinn þá er Yrsa Sigurðardóttir Drottningin á sviði glæpasagnaritunar – og það ekki aðeins á Íslandi heldur einnig í Svíþjóð.[19] Hún hefur síst notið minni vinsælda síðan fyrsta bók hennar, Þriðja táknið, kom út árið 2005. Líkt og hjá Arnaldi byggir sagan á íslenskri menningu og snýst um rannsókn lögfræðingsins Þóru Guðmundsdóttur á morði á þýskum sagnfræðinema sem finnst látinn í einni af byggingum Háskóla Íslands. Þarf Þóra m.a. að sökkva sér ofan í fræði er tengjast galdrafárinu á Íslandi og í Evrópu á 16. og 17. öld við rannsóknina. Í kjölfarið fylgdu fleiri metsölubækur um Þóru en aðrar sögupersónur hafa síðan tekið við keflinu eða frá og með bókinni Ég man þig frá 2010. Bókin var síðan kvikmynduð árið 2016. Í þeirri sögu ber nokkuð á ýmsum einkennum drauga- og hryllingssagna en mörg verka Yrsu sverja sig í ætt slíkra bókmenntagreina og marka henni nokkra sérstöðu meðal morðpenna. Um þetta hefur m.a. verið skrifað:

 

Yrsa er sú eina af íslenskum glæpahöfundum sem hefur markvisst notað sér þjóðsagnaarf til að gæða sögur sínar dálitlum aukahryllingi og að því leyti standa sögur hennar nærri hrollvekjunni. Vissulega reynast myrkraverkin í mörgum tilfellum eiga sér eðlilegar skýringar og þar fetar Yrsa í fótspor höfunda gotnesku skáldsögunnar, sem á átjándu öld spiluðu einmitt mjög á þessi mörk hins yfirnáttúrulega með því að láta allskyns dularfulla atburði gerast, en finna þeim svo að lokum raunsæar [svo] skýringar.[20]

 

Sálfræðitryllirinn Kuldi (2012) er af sama meiði en kvikmynd Erlings Óttars Thoroddsen eftir þeirri bók var frumsýnd árið 2023.

Barnabækur Yrsu hafa einnig notið vinsælda og virðingar. Sagan Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2020 en aðalpersóna þeirrar bókar er ættgöfugur og sjálfumglaður köttur að nafni Bóbó sem leitast við að koma höndum, eða loppum öllu heldur, yfir ættartölu er sannað getur ættgöfgi hans fyrir hinni íðilfögru læðu Amelíu.

Kvikmyndir gerðar eftir glæpasögum hafa tíðkast nánast frá því að kvikmyndaformið var fundið upp. Þar eru íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir engin undantekning og gróskan er mikil. Auk áðurnefndra kvikmynda má nefna Svartur á leik, eftir sögu Stefáns Mána, frá 2012, og sjónvarpsþáttaraðir á borð við Stellu Blómkvist, verið taldar fyrirtaks afþreying. Stella hefur nokkra sérstöðu innan greinarinnar þar sem þættirnir eru gerðir eftir samnefndan höfund og alldularfullan. Stella Blómkvist er einn af frumkvöðlum hinnar íslensku glæpasögu en fyrsta bók hennar, Morðið í Stjórnarráðinu, kom út árið 1997. Stella er í raun rannsóknarefni í sjálfu sér því enginn veit hver hún er í rauninni.

 

Svepp og pepp

Í umfjöllun um póstmódernisma í þessu vefriti kom fram að eitt helsta einkenni hans sé að þurrka út mörk hámenningar og lágmenningar. Það er einmitt vel þekkt umræða sem oft kemur upp í viðtölum við íslenska grínista að grín – líkt og glæpasögurnar sem rætt var um hér á undan – þyki ekki merkileg list, sé lágmenning. Póstmódernisminn reddar því. Löng hefð er fyrir góðu gríni í íslenskri menningarsögu allt frá eddukvæðum til áramótaskaupa. Halli og Laddi, Spaugstofan, Edda Björgvins, Fóstbræður, Stelpurnar, Strákarnir, Þær tvær, Steindi Jr., Sveppi, FM95Blö, Næturvaktin o.s.frv. – allt gríðarlega vinsælt og skemmtilegt. Í rauninni eru kvikmyndirnar um hinn Algjöra Sveppa og félaga hans skólabókardæmi um póstmódernisma. Það þarf ekki annað en að líta á kvikmynd Ragnars Þórs Hinrikssonar  frá 2010, Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið, til að sjá að þar er kerfisbundið vísað í hina þekktu hryllingsmynd Stanleys Kubrick, gerða eftir skáldsögu Stephens King, The Shining frá 1980. Vísanir sem þessar eru einnig fjölmargar í hinum  myndum Sveppa og félaga. Þetta hafa fleiri höfundar afþreyingarefnis fyrir börn gert. Á það hefur verið bent að barnabókin Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson frá 1986 sé eins og samin eftir forskrift póstmódernismans. Persónur sögunnar eru fengnar að láni úr ýmsum áttum en þar koma fyrir íslenska Nátttröllið, Stjúpan og Nornin úr Grimms-ævintýrum, Bangsímon og eintætti tindátinn úr sögu H.C. Andersen auk þess sem sagan byggir að nokkru leyti á sögunni um dauða Baldurs úr Snorra-Eddu.[21]

Þegar spjótum er beint að gamanþáttaröðum þá eru flestir þeirra sem nefndir voru hér að framan að vinna með hið svokallaða sketsaform, þ.e. þættirnir eru ekki byggðir upp sem samfellt saga heldur sem röð atriða sem lúta ekki sögulegri framvindu. Þetta á auðvitað ekki við um hina svokölluðu Vaktaþætti (Næturvaktin, Dagvaktin og Fangavaktin) sem eru meðal bestu og vinsælustu sjónvarpsþátta sem gerðir hafa verið hér á landi. Vinsældirnar eiga þættirnir ekki síst að þakka snilldarlega sköpuðum persónum þáttanna sem leikararnir Jón Gnarr, Pétur Jóhann Sigfússon og Jörundur Ragnarsson eiga heiðurinn að ásamt Ragnari Bragasyni leikstjóra. Þykir sumum persónusköpunin rista svo djúpt að grípa þurfi til kenninga sálgreinenda á borð við Sigmund Freud og Jaques Lacan til að skilja „konseptið“ til fulls. Í greiningu Andra Fannars Ottóssonar og Steinars Arnar Atlasonar er unnið út frá greiningu Freuds á mannssálinni í sjálf, dulvitund og yfirsjálf.  Georg er fulltrúi yfirsjálfsins, reglnanna sem samfélagið setur okkur og við eigum oft erfitt með að fylgja, Ólafur Ragnar er fulltrúi dulvitundarinnar, þess hluta sem yfirsjálfið reynir að bæla og geymir óheftar langanir okkar og hvatir – sem vill gera hlutina án þess að „ræða það eitthvað frekar“ –  en Daníel er sjálfið sem kramið er á milli andstæðna yfirsjálfsins og dulvitundarinnar. „Litla samfélagið“, eins og Georg kallar bensínstöðina í Næturvaktinni, og samskipti þremenninganna má því skoða sem e.k. myndhverfingu fyrir þau öfl sem stöðugt takast á í mannssálinni dag sem nótt.[22] Er þeim sem sjá enga dýpt í gríninu bent á að lesa umrædda greiningu.

Þegar litið er yfir metsölulista bókabúða er ekki algengt að rekast á bækur sem flokka mætti sem grínbókmenntir. Er slíkt bókmenntaform yfirleitt til eða er grínið e.t.v. aðeins að finna í barna- og unglingabókum á borð við vítaspyrnubækur Gunnars Helgasonar? Í barnabókum Yrsu Sigurðardóttur er oft stutt í grínið og Guðmóðir íslenskra barnabókmennta, Guðrún Helgadóttir, var mikill húmoristi eins bækur hennar um tvíburana Jón Odd og Jón Bjarna eru til vitnis um. Er orðagrín bræðranna þegar þeir kalla ömmu sína „ömmu dreka“ sökum þess að hún starfaði sem erindreki (sá sem rekur erindi) auðvitað hrein klassík og endurómar í brandara Fóstbræðra þegar vinnufélagarnir furða sig á því að yfirmaður þeirra hafi kallað þá á eintal einungis til að tilkynna þeim að þeir væru „drekinn“.

Guðrún hefur m.a.s. verið tengd póstmódernismanum á þeim forsendum að verk hennar hafi haft þau áhrif að mörkin á milli æsku- og fullorðinsbókmennta hafi þurrkast út með sögum hennar um tvíburana[23] (til viðbótar við mörkin á milli há- og lágmenningar). Einnig þykir sjónarhornið í sögunum hafa þá listrænu sérstöðu að það afhjúpi hræsni og tvöfalt gildismat fullorðna fólksins með því að segja fá í 3. persónu frá sjónarhóli barnanna. Sú „bernska skynjun á heiminum“ sem þarna birtist er auk þess talin hafa haft áhrif á alvarlegri höfunda á borð við Gyrði Elíasson og Kristínu Ómarsdóttur.[24] Þessi frásagnaraðferð Guðrúnar gerir það auðvitað að verkum að hið mannlega ástand er þar með skoðað í skoplegu ljósi eins og lesendur bóka hennar þekkja.

Hið sama gerði rapparinn og uppistandarinn Halldór Halldórsson Laxness, Dóri DNA, er hann gerðist skáldsagnahöfundur árið 2019 með útgáfu skáldsögunnar Kokkáll. Í gagnrýni um söguna er hún sögð „myljandi fyndin“ en þar sé einnig tekið á samfélagslegum vandamálum með alvarlegum undirtóni.[25] Hallgrímur Helgason er einn af frumkvöðlum uppistandsins á Íslandi á 10. áratugnum en hann er auk þess þekktur fyrir mýgrút orðaleikja og nánast allar tegundir af fyndni og kaldhæðni í sögum sínum og ljóðum.  Ljóðið reynist nefnilega vera kjörinn vettvangur fyrir orðagrín og leiki með tungumálið. Sem hreinræktaður póstmódernisti hefur Hallgrímur m.a. leikið sér að því að endursemja sum af frægustu ljóðum Jónasar Hallgrímssonar í glettnum tóni. Meirihluti ljóða Andra Snæs Magnasonar er hugsaður sem e.k. fyndni og sum þeirra myndu á núvirði flokkast sem hreinræktaðir pabbabrandarar. Má sem dæmi nefna ljóðið 1. apríl sem hljóðar svo:

 

marsbúinn.

 

(Andri Snær Magnason, Ljóðasmygl og skáldarán, 1995)

 

Segja má að flest ljóðskáld bregði oftar en ekki fyrir sig gríni og kaldhæðni í ljóðum sínum þó að allt virðist grafalvarlegt á yfirborðinu:

 

Næðingur

 

Vindurinn

Queen

við opinn gluggann:

for me, for me

 

Ég hlusta einsog

ég hafi aldrei

heyrt

þetta áður

 

(Gyrðir Elíasson, Meðan glerið sefur, 2023)

 

Mörg þeirra gera þó meira út á hin fyndnu mið en önnur. Þegar hefur verið fjallað um hina svokölluðu „fyndnu kynslóð“ (sjá umfjöllun um nýraunsæið á smasaga.is) og þar sem ljóðskáld hafa frá tímum Fjölnismanna verið gjörn á að ferðast í hópum hafa fleiri slíkir skotið upp kolli á seinni árum. Er þar fyrstan að telja Medúsu-hópinn sem varð til á 9. áratugnum í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti með súrrealistann Sjón (Sigurjón Birgisson) og Sykurmolann Þór Eldon innanborðs. Vinátta og sameiginlegt skopskyn Sjóns og meðlima Sykurmolanna nýtur sín vel í rokkslagaranum Lúftgítar þar sem gert er góðlátlegt grín að tregðu ungra manna til að sleppa sér lausum á dansgólfinu. Gerist Sjón þar gestaforsöngvari undir nafninu Johnny Triumph.[26]

Annar skáldahópur nefnist Nýhil og tilheyrir fyrsta áratug 21. aldarinnar. Eins og allir hóparnir á undan vildu nýhilistarnir (tómhyggjumennirnir) „hafna gildum fyrri kynslóðar“ og „endurnýja ljóðmálið“. Eiríkur Örn Norðdahl, Steinar Bragi, Kristín Eiríksdóttir og Kristín Svava Tómasdóttir eru dæmi um afkastamikla höfunda úr þessum hópi.[27] Titill bókar Eiríks frá 2007, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum, er auðvitað vísun í þekkta brandarahefð. Segja má að Eiríki takist nokkuð vel að endurnýja ljóðmálið í eftirfarandi ljóði um kambódíska stríðsglæpamanninn Pol Pot:

Pol Pot (Pantún)

Pol Pot er á pissupotti í pútnahúsi.
Pol Pot er með persónuleikaþroskaþrjóskuröskun og
parkinsons í popparapartí, pissandi í sig
á plágustigi í peysufötunum.

Pol Pot er með persónuleikaþroskaþrjóskuröskun og
prumpandi pappírsfætur, púkablístru í pjásustað
á plágustigi í peysufötum,
pardusdýr í parukkgæru, pluðraðri og plutrulegri.

Prumpandi pappírsfótum, púkablístrum í pjásustað,
og plötusnúðsins prakkarastrikum á Plútó,
pardusdýri í parukkgæru, pluðraðri og plutrulegri.
Pakk leggur púkk í sekk fyrir Pol Pot.

Plötusnúðsins prakkarastrik á Plútó,
popplög fyrir púðraða punglinga og punglaga púðlinga á meðan
pakk leggur púkk í sekk fyrir Pol Pot
og pelíkanar með pompadúr spila Pirates of Penzance.

Popplög fyrir púðraða punglinga og punglaga púðlinga! – Á meðan:
pörin paraballanna passa sig á Pol Pot
og pelíkanar með pompadúr spila Pirates of Penzance
á píanó, penníblístrur og púðurdósir.

Pörin paraballanna passa sig á Pol Pot,
þessum prjálgjarna pörupilti sem pissar
á píanó, penníblístrur og púðurdósir,
án purkunar með penisnum pastursmiklum.

Þessi prjálgjarni pörupiltur sem pissar
– Pol Pot er með persónuleikaþroskaþrjóskuröskun –
án purkunar með penisnum pastursmiklum:
Pol Pot er á pissupotti í pútnahúsi.

(Eiríkur Örn Norðdahl, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum, 2007)

 

Kristín Svava tók síðan að sér það póstmóderníska verkefni að endurskrifa ljóðið Únglíngurinn í skóginum eftir Halldór Laxness. Hér er lítið brot:

 

hann sagði:

eia!

eia pillur! eia stjörnur

stjörnurnar í bandaríska fánanum

eia skógurinn

hugmyndaskógurinn

 

hver fór í skóginn

missti e-pillurnar sínar og hló

e-pillur og e-pillur og fór að gráta

táta

kondu táta

kondu litla nótintáta

að kyssa rauða tindáta

eða kannski Heimdellinga

útí skógi

 

(Kristín Svava Tómasdóttir, Blótgælur, 2007)

 

Útópíur og dystópíur  fyrir unglingana í skóginum

Síðan fyrsta unglingabókin, Búrið eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur, kom út árið 1977 hefur allnokkuð verið ritað af bókmenntum fyrir ungt fólk. Á tímabili þóttu titlar bókanna nokkuð hallærislegir og nægir að nefna Töff týpu á föstu eftir Andrés Indriðason og Fimmtán ára á föstu eftir Eðvarð Ingólfsson. Bókin Gauragangur frá 1988 eftir Ólaf Hauk Símonarson náði mikilli hylli en bæði leikrit og kvikmynd eftir sögunni hafa notið vinsælda. Bókin fjallar um Orm, ungan og uppreisnargjarnan vélbyssukjaft sem ögrar yfirvaldinu með orðsnilld og stundum hrokafullum viðhorfum. Ekki leið hins vegar á löngu áður en fótboltakrakkar (þó aðallega strákar) fóru að verða aðalpersónur í verkum af umræddri tegund. Tár, bros og takkaskór eftir knattspyrnumanninn fyrrverandi Þorgrím Þráinsson markaði upphaf þeirrar hefðar árið 1990.[28] Þegar Þorgrímur sneri sér að öðrum umfjöllunarefnum tók Gunnar Helgason við kyndlinum sem fyrr var ritað.

Árið 1999 gerðust svo þau tíðindi að rithöfundi voru í fyrsta sinn veitt Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir barnabók. Í Sögunni af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason er fjallað um nokkurs konar útópíska veröld þar sem börn ráða ríkjum í fullkomnu frelsi og gleði þangað til hún snýst upp í andhverfu sína með tilkomu farandsölumannsins Glaums Geimmundssonar sem býðst til að uppfylla alla drauma þeirra gegn því að hann fái í staðinn brot af eilífri æsku þeirra. Allsnægtir barnanna hafa síðan þær afleiðingar að börn annars staðar í heiminum upplifa skort vegna sjálfselsku hinna. Skýr ádeila á misskiptingu auðs í heiminum. Af öðrum mikilvirkum höfundum skáldskapar fyrir ungt fólk má nefni Hildi Knútsdóttur, Arndísi Þórarinsdóttur og Rut Thorlacius Guðnadóttur.

Hægt er að líta svo á að skáldsaga Andra Snæs, LoveStar frá árinu 2002, sé á mörkum ungmenna- og fullorðinsbókmennta. Um hugmyndina á bak við söguna hefur höfundurinn sagt: „Pælingin var að kanna hvað markaðsstjóri FM 957 myndi gera við dauðann ef hann fengi frjálsar hendur til að skapa meiri stemningu“.[29] Sagan segir frá frumkvöðlinum LoveStar sem rekur samnefnt fyrirtæki. Grundvallarviðskiptahugmynd fyrirtækisins er Love Death en það er heiti yfir þá þjónustu sem fyrirtækið veitir og gengur út á að skjóta látnu fólki út fyrir gufuhvolfið og láta það falla til jarðar sem stjörnuhrap. Titill sögunnar er vísun í fræga „ástarstjörnu“ úr ljóðinu Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson en höfuðstöðvar LoveStar eru einmitt í Öxnadalnum á æskuslóðum Jónasar og sögusviði ljóðsins. Önnur helsta markaðsafurð LoveStar er tækni sem byggir á örbylgjum sem fuglar nota til að rata á milli heimsálfa og er notuð til að reikna saman sálufélaga og finna hverjum og einum lífsförunaut – allir þurfa að láta „reikna sig“ saman til að finna ástina.

Aðrar aðalpersónur sögunnar eru þau Indriði og Sigríður sem eru ástfangin en þurfa að glíma við þá fyrirstöðu að þau eru ekki reiknuð saman, ástardeild LoveStar hefur fundið annan mann handa Sigríði. Innan LoveStar er einnig rekin markaðsdeild sem greinir þarfir og áhugamál fólks og nýtir þráðlaust net sem allir eru tengdir við til að ýta að fólki ýmiss konar varningi, þjónustu og upplifunum til að auka hamingju þess með sífellt meiri neyslu og þannig  viðhalda stöðugu stuði og stemmningu. Forspárgildi sögunnar er allískyggilegt en líkindi þess fremur nöturlega söguheims sem blasir við lesendum LoveStar við hinn snjalltækjavædda nútíma eru hrollvekjandi.

Af öðrum skáldsögum sem liggja á sömu mörkum mætti nefna sögurnar Austur (2019) og Arnaldur Indriðason deyr (2021) eftir Braga Pál Sigurðarson. Báðar einkennast bækurnar af sérlega sóðalegum og kolsvörtum húmor og eru að margra mati meðal fyndnustu skáldsagna sem komið hafa út á síðustu áratugum. Fjallar sú fyrrnefnda um Eyvind sem missir alla fótfestu í lífinu eftir að eldheitt ástarsamband í gegnum Tinder fer í skrúfuna með ævintýralegum hætti. Hann segir því skilið við borgarlífið og hyggst fyrst reyna fyrir sér á sjó en verður þar fyrir miklum skakkaföllum sem leiða hann í vinnu á bóndabæ nokkrum en þar lyftast hrakningar hans upp á æðra plan.

Sú síðarnefnda fjallar um afar bitran ónytjung og ofbeldismann, Ugga Óðinsson, sem telur sig vera skáld á æðra menningarstigi en meginþorri listamanna. Hann fyrirlítur alla þá lágmenningu sem að hans mati er að steypa vestrænni menningu í glötun. Lýsingar bókarinnar á morðum hans á þekktum listamönnum og skemmtikröftum eru yfirgengilegar eins og t.d. þegar Auddi, Sveppi og félagar finnast samansaumaðir  við illan leik í 50° heitri kjallaraíbúð í Reykjavík.

Á síðari árum hefur nokkuð borið á heldur dystópískum skáldverkum sem gera þær áskoranir, sem mannkyn stendur frammi fyrir á tímum loftslagsvár og upplýsingaóreiðu, að umfjöllunarefni. Forspárgildi skáldsögunnar Eyland frá árinu 2016 kom óþyrmilega í ljós þegar loka þurfti landamærum vegna kórónaveirufaraldurs þremur árum síðar. Sagan segir frá mun dularfyllri aðstæðum þegar allt samband Íslands við umheiminn rofnar, allt net, fjölmiðlar og símkerfi liggja niðri, ekkert spyrst til skipa og flugvéla sem yfirgefið hafa landið. Við þetta breytist Ísland hægt og rólega í fasistaríki þar sem allt kapp er lagt á að brauðfæða „upprunalega Íslendinga“ með sjálfsþurftarbúskap.

Eins og í Eylandi er fasismi, eða popúlismi, undirliggjandi þema í fyrstu skáldsögu Tómasar Ævars Ólafssonar, Breiðþotur frá 2024. Þar skekur gagnaleki af óþekktri stærðargráðu heimsbyggðina. Að baki lekanum standa róttæk samtök sem krefjast aðgerða í loftslagsmálum og hóta enn stærri gagnalekum ef ekkert er að gert. Höfundur segir í viðtali að sagan sé eins konar athugun á tilurð og uppgangi fasískra hreyfinga: „Allar hreyfingarnar hafa mjög mikla veikleika […] Svörtu stígvélin eru fasísk hreyfing sem vill aðgerðir strax í loftlagsmálum sem mér fannst svolítið skemmtilegt […] Life-core hreyfingin eru vellíðunarsamtök. Menn sem vilja bara líða vel og hugleiða og eru kannski þau fasískustu […] Þau vilja taka sjálfið út og núlla út allar langanir. Þar er hin eilífa bæling. Þar býr hinn fasíski möguleiki og ef hann er virkjaður fer illa.“[30]

 

Afturhvarf til náttúrunnar

Í umfjöllun um nýraunsæið kemur m.a. fram að afstaða rithöfunda til Reykjavíkur tók að breytast á 8. áratugnum. Með verkum höfunda á borð við Pétur Gunnarsson er borginni í fyrsta sinn lýst sem jákvæðum og heillandi stað þar sem menning unga fólksins fær að blómstra og dafna. Upp úr aldamótum tekur myndin að breytast og yfirgangur manna gagnvart náttúrunni og hinn manngerði veruleiki tekur að valda ýmsum höfundum og listamönnum nokkru óþoli:

 

[…]

Ég stend við gatnamót

og sé langa röð afturljósa

– þessa rauðu hraunelfi –

renna þungt

niður að Elliðaánum

 

(Gyrðir Elíasson, Upplitað myrkur, 2005)

 

Í skáldsagnaþríleik sínum, sem hófst með Sandárbókinni árið 2007, segir Gyrðir Elíasson frá þremur ólíkum listamönnum sem yfirgefa borgina til að lifa í einveru fjarri bílum og tölvum til að einbeita sér að list sinni og mynda tengsl við náttúruna. Verk af þessum toga hafa af fræðimönnum verið tengd svokölluðum pósthúmanisma.[31] Í lokaverki þríleiksins, Sorgarmarsinum frá 2018, dvelur aðalpersónan,  maður sem fengið hefur ógeð á starfi sínu við að semja auglýsingatexta fyrir auglýsingastofu í bænum, í gömlu húsi í útjaðri sjávarþorps. Hann kýs heldur að glíma við missi barns síns með því að semja „serenöður fyrir píanó og hitaketil“ fremur en að auka sölu á BMW-bifreiðum með hnyttnum slagorðum sem yfirmaður hans rukkar hann um með reglulegu millibili.[32]

Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson er enn fremur sagður hafa stundað „póstmóderníska endurnýjun og endurvinnslu“ á hinni rammíslensku sveitasögu sem réði ríkjum í íslenskum sagnaskáldskap fram yfir miðja 20. öld.[33] Í skáldsögunni Sumarljós og svo kemur nóttin er sögumaðurinn e.k. þorpssál sem segir frá í 1. persónu fleirtölu, „við“. Þar skiptast persónur sem búa í litlu sjávarþorpi á að segja frá bæði eigin lífi og hinna persónanna og hvernig líf þeirra og örlög fléttast saman:

 

Við ætlum ekki að segja frá öllu þorpinu, förum ekki hús úr húsi, það myndir þú ekki afbera, en hér verður þó örugglega sagt frá girndinni sem hnýtir saman daga og nætur, frá hamingjusömum flutningabílstjóra, dimmum flauelskjól Elísabetar og honum sem kom með rútunni; frá Þuríði sem er hávaxin og full af heimullegri þrá, manni sem gat ekki talið fiskana og konu með feiminn andardrátt – frá einmana bónda og fjögurþúsund ára gamalli múmíu.

 

(Jón Kalman Stefánsson, Sumarljós og svo kemur nóttin, 2005)

 

Sagan hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2006 og var kvikmynd Elfars Aðalsteins eftir bókinni var frumsýnd árið 2022. Sama frásagnaraðferð er notuð í þríleiknum Himnaríki og helvíti (2007), Harmi englanna (2009) og Hjarta mannsins (2011) sem gerist á Vestfjörðum um aldamótin 1900. Það hefur verið sagt um þessa sagnabálka að sveitin sem þar birtist „sé um margt frábrugðin þeim eldri, þar sem höfundar sæki nú í sögulega fortíð og vinni með þjóðlegan fróðleik, sagnaþætti og bókmenntaarfinn – sveitasöguna sjálfa – á skapandi og gagnrýninn hátt“.[34] Gyrðir og Jón Kalman hafa báðir hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín, þ.á.m. virt alþjóðleg verðlaun sem skipa þeim í flokk fremstu samtímahöfunda heims.

Auður Ava Ólafsdóttir er einnig dæmi um verðlaunahlaðinn höfund á alþjóðavettvangi en hvað er fínna en að fá franska heiðursorðu fyrir menningarstörf, Oficcier de l’Ordre des Arts et des Lettres, sem hún og gerði árið 2023. Persónur í bókum hennar eru einnig gjarnar á að synda á móti straumnum og margar yfirgefa heimkynni sín og leita út á jaðarinn. Skáldsaga hennar Ör (2017) fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018 og árið 2024 var kvikmynd eftir bókinni, Hotel Silence, í leikstjórn kanadísk-svissnesku kvikmyndagerðarkonunnar Léu Pool, frumsýnd í Kanada.[35] Sagan fjallar um miðaldra mann sem tekur þá ákvörðun að flytja frá Íslandi til ónefnds, stríðshrjáðs lands til að láta gott af sér leiða í stað þess að enda líf sitt. Þar unir hann sér við gera upp gamalt hótel og kynnist ungri konu og mállausum syni hennar. Það hefur verið ritað um persónur í nokkrum verka Auðar að þær standi „frammi fyrir því að geta ekki notað móðurmál sitt til samskipta við mikilvæga mótleikara og þurfa því að leita til skapandi tjáskiptaleiða. Allar eru þær á ferðalagi í leit að sjálfsmynd og tilgangi með lífinu þar sem þær þurfa að takast á við eigin þversagnir.“[36]

Til að ljúka umfjöllun um háttvirt lárviðarskáld skal næstan telja Hallgrím Helgason sem einmitt fékk líka franska heiðursorðu: L’Ordre des Arts et des Lettres sem næld var á Hallgrím árið 2021.[37] Hallgrímur er einnig á slóðum sveita- eða hérðasagnahefðarinnar í hinum svokallaða Sextíu kílóa-sagnabálki sínum, Sextíu kíló af sólskini (2018), Sextíu kíló af kjaftshöggum (2021) og Sextíu kíló af sunnudögum (2024). Þar segir frá ævi hins unga Gests Eilífssonar og hvernig lífsbarátta hans samtvinnast upphafi og vexti síldveiða við Íslands strendur frá aldamótunum 1900. Sagt er frá því af nánast fordæmalausri stílíþrótt hvernig samfélagið í sjávarþorpinu Segulfirði (sem er nokkuð gegnsætt dulnefni fyrir Siglufjörð) – og þar með  íslensk þjóð – flyst úr torfkofum inn í timburklæddan og því næst steinsteyptan veruleika í kjölfar iðnvæðingar íslensks samfélags. Þróun sem í sagnabálki Hallgríms hófst með því að norskir útgerðarmenn reistu þar síldarverksmiðjur með tilheyrandi ruðningsáhrifum. Inn í söguna fléttast eldheitar ástir og örlög þeirra fjölmörgu persóna sem sagan er krydduð með. Segja má að Hallgrímur takist á við sama verkefni og Halldór Laxness ætlaði sér með Sjálfstæðu fólki frá 4. áratugnum; að segja Íslandssöguna í hnotskurn frá landnámi til iðnvæðingar. Í ritdómi um verkið segir Páll Baldvin Baldvinsson að Hallgrímur hafi „gefið okkur meistaraverk sem mun lifa okkar tíma og móta skilning og þekkingu, tilfinningu komandi kynslóða um það háskalega ævintýri sem upphaf síldveiða við Siglufjörð var – ef okkur auðnast að halda lestri og tungumálinu lifandi.“[38]

Til að gefa dæmi um ritstíl og leik Hallgríms að íslensku máli, sögu og bókmenntahefðum skal gripið niður í 1. bindi þríleiksins. Hér dettur Hallgrímur inn í það sem hann kallar sjálfur „bullsöguskýringar“ sem víða er að finna í verkinu. Rætt er um öfundarblandað vantraust sem margir bera til stórbónda eins er nefnist Kristmundur í Hvammi og á rætur að rekja til djúpstæðrar tortryggni Íslendinga í garð fólks með mikið hár:

 

Landið mun hafa verið numið af fólki sem flúði ofríki Haraldar hárfagra Noregskonungs á árunum í kringum 900 og sú kenning var forn að landnámsmenn Íslands hefðu flestir verið hárlitlir menn; rammsköllóttir eða illa hærðir kollvikakóngar og strýhærðar konur þeirra. Skallagrímssynir og taðskegglingar upp til hópa. Konungur hlaut enda viðurnefni sitt af því heiti sínu að skerða ekki hár sitt fyrr en það næði niður í alla firði Noregs. Frumbyggjar Íslands voru því einskonar hárflóttamenn. Enda hófu þeir þegar að trjáhreinsa sitt nýja land. Allar götur síðan hafa Íslendingar verið lítið fyrir gróður í hlíðum jafnt sem á höfði en una sér best á berangri, vilja sjá til hafs, og þola hvorki lauf né lufsur í augum. Fátt þykir þeim fegurra en jökulskalli sem ber við loft og þeir heimta sín fjöll og sínar heiðar með öllu hárlausar. Við kristnitökuna var það svo hárfegurð Krists sem stóð hvað mest í ungri þjóð. Í hennar huga voru guðir jafnan þunnhærðir af eilífi sínu, visku og dýpt, eins og reyndin var með hin heiðnu goð. Forystumenn Íslands voru enda löngum létthærðir, frá Njáli til Arasonar til Sigurðssonar, rétt sem skáldin, frá Snorra til sálmaprests. Síðhæri var tabú hjá trjálausri þjóð, líkt og aldalangt hatur hennar á Hallgerði langbrók bar með sér. Þá var lokkaprýði eiginmanns hennar ein ástæða fyrir drápi hans. Íslendingar hafa aldrei þolað hárfagra menn.

 

(Hallgrímur Helgason, Sextíu kíló af sólskini, 2018)

 

Bergsveinn Birgisson hefur í skáldsögum sínum fjallað um persónur sem afneita borgarmenningunni og kjósa sterkari tengingu við sveitina og náttúruna. Í Svari við bréfi Helgu (2010) gerir gamall bóndi upp líf sitt og ígrundar þá ákvörðun sína að hafa ungur að árum kosið sveitalífið, tengslin við náttúruna og dýrin í stað borgaralegrar tilvistar í Reykjavík með ástinni í lífi sínu. Í verki sama höfundar, Lifandilífslæk (2018), sem gerist á 18. öld, ferðast ungur, íslenskur menntamaður frá Kaupmannahöfn norður á Strandir til að vinna að kortlagningu svæðisins fyrir dönsk yfirvöld og m.a. skoða hvort flytja þurfi landsmenn yfir til Jótlands vegna þeirra náttúruhamfara sem áttu sér stað í Skaftáreldum á tíma sögunnar: „[F]erðalagið gegnum óhamið landslagið endurvekur með honum dulræna eiginleika sem hann hefur vandlega lokað á í nafni siðmenningar. Ferðalagið kennir honum fyrst og fremst auðmýkt“.[39]

Auðmýkt gagnvart náttúruöflunum hefur einmitt verið áberandi í íslenskum bókmenntum og listum á 21. öldinni og ekki að undra miðað við öll þau eldsumbrot sem átt hafa sér stað á landinu og áður hafa verið nefnd hér. Má þar einnig nefna verk eins og Heklugjá – leiðarvísir að eldinum (2018) eftir Ófeig Sigurðsson, Eldarnir – Ástin og aðrar hamfarir (2020) eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur og Ból eftir Steinunni Sigurðardóttur (2023).

 

Veruleikavæðing menningarinnar

 

Sá sem ekki hefur breyst í texta hefur ekki lifað.

(Sigurður Pálsson, Bernskubók, 2011).

 

Öld sjálfunnar, sjálfsins, sjálfsdýrkunarinnar, sjálfsfélagsmiðlavæðingar rann upp með örri þróun internetsins á upphafsárum 21. aldar og rædd var hér í uppafi. Sú aldagamla tilhneiging manna að skrifa felur í sér þá djúpstæðu þörf að varðveita minningar og um leið það ómögulega markmið að festa veruleikann í e.k. form. „Á stafrænum tímum gerist það tvennt að veruleikinn verður varðveitanlegri en nokkru sinni fyrr um leið og hann fjarlægist stöðugt efnislegan veruleika og leysist upp í endalausar 0101-runur.“[40] Kortlagning lífsins og persónuleg tjáning manna á reynslu sinni í sjálfsævisögum og skáldævisögum hefur löngum verið vinsælt lesefni og hefur samfélagsmiðlavæðingin og veruleikasjónvarpið fremur aukið á þá útgáfu fremur en að draga úr henni.

Sjálfsævisögur Þórbergs Þórðarsonar Íslenskur aðall og Ofvitinn auk Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar frá fyrri hluta 20. aldar eru nú taldar sem íslensk klassík. Sú póstmóderníska meðvitund um að allar minningar væru að mestu leyti skáldskapur og að sannleikurinn væri sjónarhorninu háður birtist í bálki Guðbergs Bergssonar, sem hófst með Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar (1997) var fylgt eftir með Minningabókum Sigurðar Pálssonar, Minnisbók (2007), Bernskubók (2011) og Táningabók (2014). Af öðrum ævisögulegum verkum sem hafa þótt tíðindum sæta á bókmenntasviðinu á undanförnum árum má nefna Sjóræningjann (2012) eftir Jón Gnarr, Dísusögu (2013) eftir Vigdísi Grímsdóttur og Sjóveikur í München (2015) eftir Hallgrím Helgason. Höfundar ofangreindra verka ganga sumir hverjir nokkuð langt í að berskjalda sig og líf sitt fyrir lesendum sínum og oft ekki hirt um að fegra og fótósjoppa ímynd sína líkt og gert er á samfélagsmiðlum.

Margvíslegar leiksýningar hafa auk þess gert út á hin opinskáu mið. Sem nokkur handahófskennd dæmi má nefna Ég var einu sinni nörd (1998) eftir Jón Gnarr, Vertu úlfur (2021) eftir Unni Ösp Stefánsdóttur, sem gerð var eftir samnefndri bók Héðins Unnsteinssonar, og verk Unnar Aspar, Saknaðarilmur (2024) eftir bók E               lísabetar Jökulsdóttur. Hvort uppstandssýning Jóns Gnarrs hafi orðið kveikjan að fyrrnefndri ævisögu og framhaldsbókum skal ósagt látið. Þessar sögur eiga þær hins vegar allar sameiginlegt að þar er sögð saga fólks sem á einhverjum tímapunkti í lífi sínu hafa upplifað sig utangarðs. Um bækur Jóns hefur verið ritað:

 

Sögumaður staðsetur sig sjálfan utan við samfélag og félagsskap, meðal jafnaldra og í skóla og áhrifin sem þetta hefur á sjálfsmynd og tilfinningalíf sögumanns er í forgrunni. Þetta er sköpunarsaga úrkastsins, utangarðsmannsins, og staða hans er skýr frá byrjun: Hann er óvelkominn, öðruvísi en aðrir og jaðarsettur. Þannig lýsir Jón upphafi sínu og æsku og hann samsamar sig fljótt við aðra jaðarhópa, þá sem hugsa öðruvísi og lifa á annan máta. Hann lýsir því yfir að hann sé indjáni en ekki kabboji, kabbojar eru nefnilega ferkantaðir, en indjánarnir frjálsir.[41]

 

Á eftir póstmódernismanum

Hér hefur verið rætt um eitt og annað sem hefur verið áberandi í menningunni hérlendis frá árþúsundskiptum. Þegar litið er yfir umrætt tímabil er ljóst að menningarlíf hér á landi hefur verið blómlegt á flestum sviðum. Í bókmenntunum hafa glæpasögurnar verið áberandi, sjálfsævisögur virðast hafa fengið aukinn slagkraft auk skáldskapar sem boðar afturhvarf til náttúrunnar. En það eru ekki aðeins glæpasögur sem vekja athygli hérlendis sem erlendis heldur einnig höfundar sem skrifa annars konar sögur en glæpasögur. Fjölbreytnin í sköpunarstarfi listafólks sem starfar hér á landi er gríðarleg hvort sem landið teljist fæðingarstaður þess eða ekki. Joachim B. Schmidt, Natasha S.  og Maó Alheimsdóttir eru dæmi um höfunda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.  Komið hefur fram að áhrif póstmódernismans leynast víða, m.a. í afþreyingarefni fyrir börn og ungmenni. Það sama má segja um ýmsar aðrar listastefnur, það er hins vegar fjölbreytnin sem einkennir íslenskt menningarlíf og það er áreiðanlegasti heilbrigðisstimpill sem hægt er að hugsa sér.

 

[1] Embla Rún Halldórsdóttir. (2022). Megir þú lifa sögulega tíma. Íslenska leiðin – tímarit stjórnmálafræðinema 16, 23-24.

[2] Til að glöggva sig á fyrirbærinu samfélagsmiðlar er vert að lesa þessa grein: Jón Gunnar Ólafsson. (2023, 17. febrúar). Hvað eru samfélagsmiðlar? Vísindavefurinn, 17. febrúar 2023, https://visindavefur.is/svar.php?id=80267.

[3] Embla Rún Halldórsdóttir. (2022). Megir þú lifa sögulega tíma. Íslenska leiðin – tímarit stjórnmálafræðinema 16, 23-24.

[4] Sigurður Svansson. (2022). Þróun samfélagsmiðla. Ský. https://www.sky.is/tolvumal/2842-throun-samfelagsmidhla.

[5] Singh, Shubham. (2025). How Many People Use TikTok 2025. demandsage.com. https://www.demandsage.com/tiktok-user-statistics/.

[6] Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir (dagskrárgerðarmenn). (2025, 25. júní). Víðsjá [útvarpsþáttur]. Rúv.is. https://www.ruv.is/utvarp/spila/vidsja/23618/b725kc.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Júlía Aradóttir. (2023, 10. júlí). „Það varð allt vitlaust“. Rúv.is. https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2023-07-10-thad-vard-allt-vitlaust-387162.

[10] Ásgeir Eyþórsson og Gunnlaugur Jónsson (dagskrárgerðarmenn). (2023, 5. ágúst). Árið er 1988 [útvarpsþáttur]. Rúv.is. https://www.ruv.is/utvarp/spila/arid-er/34064/a4rg89.

[11] Alma Ómarsdóttir. (2024, 24. október), Fiðrildategund nefnd til heiðurs Björk. Rúv.is. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-10-24-fidrildategund-nefnd-til-heidurs-bjork-425548.

[12] Ásgrímur Sverrisson (ritstj.). (2025). 27 alþjóðleg verðlaun til íslenskra kvikmyndaverka 2024. Klapptré.is. https://klapptre.is/2025/01/23/25-althjodleg-verdlaun-til-islenskra-kvikmyndaverka-2024/.

[13] Ásgrímur Sverrisson (ritstj.). (2025). Menningin er frí og ríkissjóður græðir, samkvæmt nýrri úttekt á skattaáhrifum kvikmyndagerðar. Klapptré.is. https://klapptre.is/2025/02/11/menningin-er-fri-og-rikissjodur-graedir-samkvaemt-nyrri-uttekt-a-skattaahrifum-kvikmyndagerdar/.

[14] Sama heimild.

[15] Bergljót Soffía Kristjánsdóttir. (2010). Á kálfskinnsfrakka eða Arnaldur Indriðason og bókmenntaarfleifðin. Skírnir 184, 434-54.

[16] Sama heimild.

[17] Linda Rún Pétursdóttir (munnleg heimild, 27. júní 2025).

[18] Dimma Pictures verður að veruleika. (2025, 26. maí). Mbl.is. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/05/26/dimma_pictures_verdur_ad_veruleika/.

[19] Sbr. tilvitnun á rafbókarkápu Þriðja táknsins frá 2014. Forlagið. (2025). Þriðja táknið. https://www.forlagid.is/vara/tridja-taknid-rafbok/.

[20] Úlfhildur Dagsdóttir. (2013). Glæpir og myrkraverk – um glæpasögur Yrsu Sigurðardóttur. Bókmenntavefur.is. https://www.bokmenntir.is/bokmenntavefur/hofundar/yrsa-sigurdardottir.

[21] Jón Yngvi Jóhannsson. (2020). Barnabókmenntir og íslensk bókmenntasaga – þrjú dæmi. Tímarit Máls og menningar, 81 (2), 53-58.

[22] Andri Fannar Ottósson og Steinar Örn Atlason. (2008). Næturvaktin: Íslensk sálgreining? Tímarit máls og menningar 82 (3), 83-94. https://timarit.is/page/6807144#page/n93/mode/2up.

[23] Jón Yngvi Jóhannsson. (2020). Barnabókmenntir og íslensk bókmenntasaga – þrjú dæmi. Tímarit Máls og menningar, 81 (2), 53-58.

[24] Sama heimild.

[25] Maríanna Clara Lúthersdóttir. (2019, 15. nóvember). Myljandi fyndin skáldsaga um íslenskan veruleika. Rúv.is. https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/myljandi-fyndin-skaldsaga-um-islenskan-veruleika.

[26] The Sugarcubes & Johnny Triumph. (2007, 30. júní) Luftgitar [myndskeið]. https://www.youtube.com/watch?v=tHMATQvbR5c&list=RDtHMATQvbR5c&start_radio=1.

[27] Dagný Kristjánsdóttir. (2010). Öldin öfgafulla. Bókmenntasaga tuttugustu aldarinnar. Bjartur, bls. 261.

[28] Ásta Kristín Benediktsdóttir. (2021). Íslenskar bókmenntir. Saga og samhengi. Seinni hluti. Hið íslenska bókmenntafélag.

[29] María Bjarkadóttir. (2019). Ekkert stöðvar hugmynd. Bókmenntavefur.is. https://bokmenntir.is/bokmenntavefur/hofundar/andri-snaer-magnason.

[30] Júlía Aradóttir. (2024, 18. nóvember). Erum öll launhrædd við stóra gagnalekann. Rúv.is. https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2024-11-18-erum-oll-launhraedd-vid-stora-gagnalekann-427401.

[31] Auður Aðalsteinsdóttir. (2023). Hamfarir í bókmenntum og listum. Háskólaútgáfan. Hugmynd pósthúmanismans gengur út á það að líta ekki á manninn sem drottnara náttúrunnar heldur jafngildan hluta hennar sem aðrar lífverur.

[32] Gyrðir Elíasson. (2018). Sorgarmarsinn. Dimma.

[33] Ásta Kristín Benediktsdóttir. (2021). Íslenskar bókmenntir. Saga og samhengi. Seinni hluti. Hið íslenska bókmenntafélag.

[34] Sama heimild.

[35] Auður Ava Ólafsdóttir. [e. d.]. Bókmenntavefur.  https://bokmenntir.is/bokmenntavefur/hofundar/audur-ava-olafsdottir.

[36] Ásta Kristín Benediktsdóttir. (2021). Íslenskar bókmenntir. Saga og samhengi. Seinni hluti. Hið íslenska bókmenntafélag.

[37] Hallgrímur Helgason. [e. d.]. Bókmenntavefur. https://bokmenntir.is/bokmenntavefur/hofundar/hallgrimur-helgason.

[38] Páll Baldvin Baldvinsson. (2024, 27. október). Lokabindi þríleiksins. Heimildin. https://heimildin.is/grein/22988/lokabindi-thrileiksins/.

[39] Auður Aðalsteinsdóttir. (2019). Náttúruhamfarir og rof nútímans. Skírnir 193, 177-196.

[40] Gunnþórunn Guðmundsdóttir. (2016). Vitnisburður um veruleikann. Um nokkur íslensk sjálfsævisöguleg verk 2010-2015. Skírnir 190, 304-320.

[41] Sama heimild.

0