Nokkur orð um nýrómantík og félagslegt raunsæi
Gunnar Skarphéðinsson
Nýrómantíkin og umbyltingarskeiðið milli 1920 og 1930
Árið 1929 skall á heimsbyggðinni svokölluð heimskreppa. Þetta var efnahagslegt hrun, sem hófst í Bandaríkunum í októbermánuði með gífurlegu falli verðbréfa en breiddist síðan út með þunga til flestra landa beggja vegna Atlantshafsins og setti mjög mark sitt á efnahagslíf og atvinnulíf á milli 1930 og 1940.1 Bókmenntir á Íslandi tóku líka brátt að verða róttækari í allri umfjöllun sinni um samfélagsmál. Áratugurinn á milli 1920 og 1930 hefur oft verið kenndur hérlendis við „deiglu“ eða einhvers konar mótunarskeið en þá leita skáld og rithöfundar fyrir sér að nýjum aðferðum og kynna sér nýjar stefnur og strauma í listum og bókmenntum. Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918 spretta fram margvíslegar nýjar stefnur í listum í Evrópu og þótt Ísland sé einangrað land berst hingað veikur endurómur af súrrealisma, expressjónisma og austrænni dulspeki og ýmsu öðru nýstárlegu efni og hugmyndum. Þriðji áratugurinn einkennist almennt af mikilli grósku og leit að nýjum gildum eftir þann mikla hildarleik sem fyrri heimsstyrjöldin (1914–1918) var. Mikið er einnig að gerast í tónlist, myndlist og kvikmyndum bæði austan hafs og vestan.
Tveir íslenskir rithöfundar sendu frá sér lausamálsverk sem vöktu mikla eftirtekt og umræður í þjóðfélaginu. Þetta voru þeir Þórbergur Þórðarson (1888/9–1974), sem skrifaði Bréf til Láru árið 1924 og Halldór Kiljan Laxness (1902–1998) sem samdi Alþýðubókina vestur í Bandaríkjunum árið 1928 en hún kom svo út árið 1929. Þessi tvö verk voru skrifuð á hressilegan hátt og stíll þeirra beggja þótti nýstárlegur og ögrandi. Hitt skipti þó ekki minna máli að hvers konar þjóðfélagsmál voru mjög áberandi í báðum bókunum og margt var tekið til umfjöllunar sem ekki hafði verið rætt fyrr í þjóðfélaginu, átti þetta ekki síst við um Alþýðubókina. Halldór Laxness ræddi um kvikmyndir, stöðu konunnar í þjóðfélaginu, hreinlæti meðal Íslendinga, eða betur sagt skort á hreinlæti, og fjölmargt annað. Segja má að í þessum verkum hafi verið að nokkru leyti sleginn sá tón sem átti svo eftir að verða ríkjandi í bókmenntum á fjórða og fram eftir fimmta áratugnum hérlendis. Bókmenntir urðu raunsærri og þjóðfélagslegri á þessum árum en á tímabilinu á undan, sem nefnt hefur verið nýrómantíska skeiðið, en það er talið standa frá um 1900 fram til um 1920/30. Skáld þess tímabils ortu ljúfsár tilfinningaþrungin ljóð um ástina, þunglyndið og dauðann, sem oft var óhugnanlega nálægur ungu fólki á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Þar átti „hvíti dauðinn“ eða berklarnir drjúgan hlut að máli en þeir lögðust oft mjög þungt á ungt fólk.
Ungu skáldin upp úr aldamótunum 1900 reyndu allmörg að freista gæfunnar á rithöfundabrautinni erlendis, einkum í Danmörku. Jóhann Sigurjónsson (1880–1919) var fyrstur Íslendinga til þess að reyna þetta. Hann er einkum þekktur fyrir leikrit sín sem hann samdi upphaflega á dönsku (Fjalla-Eyvindur 1911, Galdra-Loftur 1915) en á seinni árum hefur athygli manna beinst að þeim ljóðum sem hann orti á íslensku. Ljóðin eru þó fremur fá og reyndar gaf hann aldrei út neina ljóðabók. Jóhann hætti ungur námi í Lærða skólanum og fór til Danmerkur og hugðist leggja stund á dýralækningar en hætti því eftir nokkur ár og sneri sér alfarið að skáldskap og skrifaði á dönsku. Ljóðið Sorg eftir Jóhann birtist ekki fyrr en eftir dauða Jóhanns en það var fyrst prentað í tímaritinu Vöku árið 1927. Það er mjög nýstárlegt eða „módernískt“ sé miðað við þann skáldskap sem þá tíðkaðist hérlendis. Mikið er um óvenjulegar líkingar og samhengi er ekki auðráðið, ljóðlínur mislangar og formið allt frjálst. Málfarið er býsna upphafið og sjá má áhrif frá biblíulegum stíl. Einhlít túlkun ljóðsins hefur mjög vafist fyrir mönnum allt til okkar daga. Sumir skilja ljóðið mjög persónulega og telja að skáldið sé að yrkja um vin sinn sem missti geðheilsuna en aðrir tengja það við heimsstyjöldina fyrri og kollsteypur siðmenningarinnar á ýmsum skeiðum. Sorg er stundum nefnt fyrsta nútímaljóðið í íslenskri bókmenntasögu og óhætt er að segja að slík ljóð hafi ekki verið ort hérlendis fyrr en allmörgum áratugum seinna.
Heimskreppan og félagslegt raunsæi
Upp úr 1930 verða svo skörp skil í bókmenntum og raunar öðrum listum jafnframt. Heimskreppan mikla er þar mikilvægur þáttur en með henni harðna mjög svokölluð stéttaátök og stéttabarátta. Atvinnuleysi fylgdi kreppunni bæði hér heima og víðast hvar erlendis. Þá um leið urðu verkföll tíð og stundum kom til átaka. Sem dæmi um slík átök er Gúttóslagurinn sem átti sér stað í Reykjavík 9. nóvember árið 1932. Heimspólitíkin varð einnig mjög spennuþrungin á árunum á milli 1930 og 1939 en 1. september það ár braust heimsstyrjöldin síðari út þegar herir Þjóðverja ruddust inn í Pólland. Margir líta á borgarastyrjöldina á Spáni, sem stóð frá 1936-39, sem eins konar forleik að heimsstyrjöldinni síðari. Nasistaflokkurinn eða þjóðernisjafnaðarmenn höfðu náð völdum í Þýskalandi árið 1933 undir forystu Adolfs Hitlers en í Sovétríkjunum réðu kommúnistar allt frá byltingunni 1917. Vesturveldin með Bretland og Frakkland í fararbroddi voru svo á hinn bóginn forystulönd meðal Vestur-Evrópuþjóða þar sem lýðræði var sett á oddinn.
Skáld og rithöfundar hérlendis tóku yfirleitt afstöðu með verkalýðnum og baráttu hans fyrir bættum kjörum. Þeir stofnuðu með sér félagsskap byltingarsinnaðra rithöfunda og gáfu út tímarit sem þeir nefndu Rauða penna. Þetta tímarit kom út í fjögur ár en seinna varð svo til Tímarit Máls og menningar sem var að mestu leyti á vegum þessara sömu rithöfunda. Þeir voru margir hliðhollir Sovétríkunum en þar eystra var ríkjandi um þetta leyti bókmenntastefna sem kölluð var sósíalískt raunsæi. Þar var verkamaðurinn gerður að hetju dagsins en draumar hans munu rætast þegar hann sigrast á drottnandi öflum þjóðfélagsins og skapar sér nýtt þjóðfélag jafnréttis og bræðralags.
Þessar hugmyndir koma að nokkru fram hjá Halldóri Laxness í bókum hans frá þessum árum. Hann skrifaði geysimörg verk á fjórða áratug aldarinnar. Þar á meðal eru þrjár breiðar epískar2 skáldsögur sem allar falla um margt undir félagslegt raunsæi. Þær eru Salka Valka (1931-32), Sjálfstætt fólk (1934-35) og Heimsljós (1937-40). Aðalpersónan í Sölku Völku er föðurlaus alþýðustúlka sem vex upp í sjávarplássi við ömurleg skilyrði en nær að standa sig í harðri lífsbaráttu og eignast hlut í bát en snýst svo til þess að vera í fylkingarbrjósti í verkalýðsbaráttunni. Ástmaður hennar, Arnaldur, hefur sýnt henni fram á ranglætið í þjóðfélaginu með rökvísi sinni og þjóðfélagslegri skarpskyggni. Arnaldur yfirgefur samt Sölku í lok sögunnar enda hefur honum vísast innst inni þótt sem hún væri sér ekki samboðin. Sanntrúaðir marxistar voru ekki sáttir við þessa lýsingu Halldórs á boðbera hinna sósíalísku fræða í bókinni. Þeim þótti sem svik væru ekki sæmandi manni í stöðu Arnalds.
Sögulokin í Sjálfstæðu fólki sýna líka ákveðna hneigð3 í átt til samstöðu með verkamönnum og verkalýðsbaráttu.
Þórbergur Þórðarson skrifaði aldrei neinar skáldsögur þannig að hans verk spegla ekki þennan boðskap á sama hátt og gerist hjá Halldóri Laxness og Halldóri Stefánssyni (1892–1979) og fleiri höfundum. Þórbergur skrifaði hins vegar margar pólitískar greinar og var t.d. dæmdur fyrir að skrifa níð um Hitler. Hann skrifaði líka ferðabók frá Rússlandi sem hét Rauða hættan (1935). Þórbergur flytur þar boðskap um ágæti hins nýja þjóðskipulags sem hann var sannfærður um.
Það er til marks um afköst Halldórs Laxness að hann skrifaði einnig tvær ferðabækur frá Rússlandi á þessum árum: Í Austurvegi (1933) og Gerska ævintýrið (1938). Seinni bókin var mjög áhrifamikil en Halldór tekur þar eindregna afstöðu með Sovétríkjunum á flestum sviðum en endurskoðar svo málin aldarfjórðungi síðar í Skáldatíma (1963).
Ljóðskáldin voru líka atkvæðamikil og ortu mörg hver beitt baráttuljóð. Má þar einkum nefna Stein Steinarr (1908–1958) og Jóhannes úr Kötlum (1899–1972). Fyrsta bók Steins hét Rauður loginn brann (1934) og nafnið eitt segir nokkuð til um efnið. Steinn þykir einna pólitískastur í þessari fyrstu bók sinni en í henni má t.d. finna ljóðið Verkamaður þar sem samúð með lítilmaganum er augljós. Seinni bækur Steins þykja „heimspekilegri“ og ekki eins bundnar við þjóðfélagsleg efni. Mesta nýjungaverk hans er svo Tíminn og vatnið sem kom út árið 1948. Sumir líta á verkið sem ástarljóð en aðrir benda á áhrif frá abstraktmálverkinu sem var nýkomið til sögunnar hérlendis um þetta leyti. Steinn sagði sjálfur að líta ætti á verkið sem eins konar ballett. En einkunnarorð ljóðsins, sem sótt voru til enska skáldsins Archibald MacLeish, urðu þekkt og oft til þeirra vitnað þegar rætt var um atómljóðin sem tóku að koma fram um 1950: „A poem should not mean but be.“ Steinn átti raunar marga strengi í skáldhörpu sinni. Hann orti gamankvæði og háðs- og ádeiluljóð, jafnt sem ljóð um ást og trega og einsemd mannsins og tilgangsleysi lífsins. Hann orti í upphafi ferils síns á hefðbundinn hátt með stuðlasetningu og rími og reglubundinni hrynjandi en seinna urðu ljóðin frjálsari í formi og hnitmiðaðri enda litu atómskáldin oft til Steins sem eins konar brautryðjanda og læriföður.
Jóhannes úr Kötlum var nokkrum árum eldri en Steinn og hafði raunar verið kennari hans vestur í Dölum þegar Steinn var á barnaskólaaldri. Jóhannes orti í upphafi undir nýrómantískum áhrifum. Hann orti ljóð sem sýndu einlæga ást á landinu, þjóðinni og tungunni. Hann orti líka fyrir börn og eru Jólasveinavísurnar hans þar kannski þekktastar enda hafa þær komið út margsinnis. Hann var raunar alla tíð býsna rómantískur í viðhorfum sínum en á milli 1930 til 1940, á hinum margumtöluðu og erfiðu kreppuárum, gerðist hann róttækur og gekk til liðs við Rauða penna. Ljóðið Morgunsöngur, sem birtist í bókinni Samt mun ég vaka frá árinu 1935, sýnir vel hvernig hann horfir í átt til bjartari framtíðar þegar fátæk alþýðan hefur velt af sér ánauðarokinu og gengur sterk og hugdjörf fram á móti nýjum vonum og rísandi degi. Jóhannes átti mjög létt með að yrkja með hefðbundnum hætti enda hafði hann alist upp við slíkan skáldskap allt frá blautu barnsbeini eins og reyndar fólk almennt af hans kynslóð. Þess vegna urðu margir aðdáendur hans fyrir vonbrigðum þegar hann sendi frá sér bók árið 1955 sem öll var ort með hinum nýja hætti. Bókin hét Sjödægra og kom út eftir nokkurt hlé hjá Jóhannesi. Hann var greinilega að þreifa fyrir sér um nýjan stíl. Ljóðið Rímþjóð sem birtist í þessari bók lýsir því vel hvernig hann leit á rímið og hina gömlu kveðskaparhefð sem eins konar dægrastyttingu íslenskrar þjóðar við örðugar aðstæður á niðurlægingar- og þrengingartímum hennar. Þegar þjóðin varð loks frjáls og veröldin mikla opnaðist:
„– þá sökk hennar rím eins og steinn
með okinu niður í hafið.“
Jóhannes var einkum ljóðskáld en skrifaði einnig nokkrar skáldsögur en þær urðu ekki ýkja vinsælar. Hann varð þjóðkunnur og vann t.d. önnur verðlaun fyrir hátíðarljóð sitt, Íslendingaljóð 17. júní 1944 (Land míns föður, landið mitt), árið 1944. (Hulda eða Unnur Benediktsdóttir vann fyrstu verðlaun).
Jón úr Vör (1917–2000) var meðal þeirra skálda sem tölust til Rauðra penna. Hann fæddist og ólst upp á Patreksfirði og gerði uppvaxtarárum sínum, og þar með kreppuárunum, eftirminnileg skil í ljóðabók sem hann nefndi Þorpið og út kom stuttu eftir lok seinni heimsstyrjaldar, þ.e. árið 1946. Efni bókarinnar er allt sótt í líf hins stritandi alþýðufólks þessara ára. Við kynnumst barnmörgum fjölskyldum, sjóróðrum sem enginn veit hvernig muni lykta, svitnum með skáldin í kolavinnu og sjáum hvernig húsmæðurnar hjálpast að í fátækt sinni. Bókin er líka merk í bókmenntasögunni fyrir þá sök að hún er öll í frjálsu formi ef svo má segja. Sumum þótti skáldið fara fullnærri óbundinni ræðu í ljóðunum.
Borgaraleg skáld og rithöfundar á kreppuárunum
Voru þá öll skáld og allir rithöfundar vinstri sinnaðir á þessu tímabili? Nei, svo var ekki en það óhætt að segja að hugmyndafræðileg slagsíða hafi verið á bókmenntaskútunni. Þau skáld sem ekki töldust til „rauðra penna“ í einhverjum skilningi voru allmörg. Þau aðhylltust borgaraleg viðhorf, sem svo voru nefnd, og ortu yfirleitt ekki beint um þjóðfélagsleg efni. Meðal þessara skálda má nefna Davíð Stefánsson (1895–1964) og Tómas Guðmundsson (1901–1983). Þessi skáld bæði höfðu mótast á nýrómantíska skeiðinu og héldu sig að mestu til hlés í pólitískri baráttu. Davíð var feikilega vinsælt skáld og stundum var um það rætt að hann væri „síðasta þjóðskáldið“ en með því var átt við að hann hefði á 20. öld öðlast svipaða stöðu í vitund þjóðarinnar eins og þau skáld á 19. öldinni sem þjóðin hafði tekið sérstöku ástfóstri við (Jónas Hallgrímsson, Steingrímur Thorsteinsson og Matthías Jochumsson). Davíð var ljóðskáld fyrst og fremst en samdi eina skáldsögu sem varð mjög þekkt. Hún fjallar um kunnan flakkara á 19. öld, Sölva Helgason. Sagan heitir Sólon Islandus (1940) en svo mun Sölvi hafa kallað sig stundum en hann leit stórt á sig þrátt fyrir óblíð örlög. Sölvi var listrænn og fékkst við að mála sem ekki var einfalt mál á fyrri tíð. Davíð samdi líka leikrit og er Gullna hliðið (1941) kunnast þeirra. Það byggir á þjóðsögu sem flestir þekkja um kerlinguna sem reynir með brögðum að koma sál karls síns inn í himnaríki. Þjóðsagan heitir Sálin hans Jóns míns.
Ljóð Davíðs urðu geysivinsæl og mikið sungin, einkum ljóðin úr fyrstu bókum hans. Sagt er að allar ungar stúlkur hafi sofið með fyrstu bók hans undir koddanum. Hún hét Svartar fjaðrir og kom út 1919 eða nokkru fyrr en félagslegt raunsæi nær að skjóta rótum. Davíð orti um erfið kjör alþýðufólks en vinstri menn sögðu að það væri ekki gert undir réttum formerkjum. Það var ekki fullnægjandi að hafa samúð með alþýðunni – það varð að vekja hana til nýs lífs en Davíð hafði ort:
Þeim gleymist oft, sem girnast söng og dans
að ganga hljótt hjá verkamannsins kofa.
(Lofið þreyttum að sofa).
og:
Fáir njóta eldanna,
sem fyrstir kveikja þá.
(Konan, sem kyndir ofninn minn).
Ljóð Davíðs voru sérlega aðgengileg og ort á fremur einföldu máli á léttan og lipran hátt. Hann braust undan hátíðlegum stíl 19. aldar skáldanna en steig aldrei yfir þau mörk að segja skilið við hefðbundið rím og hefðbundna hrynjandi. Ljóð hans höfðuðu mjög til tónskálda og enn í dag eru mörg ljóða hans sungin og alkunn: Snert hörpu mín himinborna dís og Komdu inn í kofann minn er kvölda og skyggja fer. Davíð var Eyfirðingur og kenndi sig við fæðingarstað sinn, Fagraskóg. Hann bjó alla tíð á Akureyri og var þar bókavörður. Hús hans er nú varðveitt sem safn til minningar um hann og þar má sjá heimili hans og gríðarmikið bóksafn sem hann átti og ýmsa fágæta muni.
Tómas Guðmundsson gaf út fyrstu bók sína meðan nýrómantíkin er enn ráðandi en með annarri bók sinn „sló hann í gegn“ eins og sagt er. Bókin hét Fagra veröld og kom út í miðri kreppu, þ.e. árið 1933. Heiti bókarinnar sýnir á sinn hátt að skáldið er ekki mjög upptekið af vonsku veraldarinnar heldur gerir sér far um að draga fram það fagra, góða, skáldlega og skemmtilega. Mörg ljóðanna voru ort um Reykjavík og daglegt líf manna í borginni. Þetta var nýjung á þessum tíma því að Íslendingar voru að langmestu leyti fæddir og uppaldir í sveit og þéttbýli var ungt á Íslandi. Bæir höfðu haft fremur illt orð á sér – þar var spilling, óheilnæmt loft og argaþras og hávaði. Heilbrigt líf þreifst bara í skauti náttúrunnar sögðu menn. En hér kvað við nýjan tón. Skáldið sá hvarvetna eitthvað skáldlegt og fyndið: „úr grjótinu gæist rotta/og gömlu bátarnir dotta/í naustunum letilega“, segir í ljóði sem heitir Vesturbærinn. Tómar yrkir um Austurstræti, Kolakranann og Fyrir átta árum, enda fór það svo að hann var oft nefndur „Reykjavíkurskáldið“. Ljóðin höfðu einkar létt og skemmtilegt yfirbragð. Þau voru fyndin á saklausan og einfaldan hátt og laus við alla meinfýsni sem oft þykir einkenna íslenska fyndni. Fjallganga er ljóð sem flestir þekkja og margir kunna. Skáldið skopast ekki síst að sjálfum sér:
Koma heim og heita því,
að leggja aldrei upp á ný.
Dreyma margar næstu nætur
hrap í björgum, brotna fætur.
Tómas var lögfræðingur að mennt en starfaði lítið við það og orti reyndar gamankvæði sem hét „Þegar ég praktíseraði.“ Það ríkti ró og næði á skrifstofunni því jafnvel rukkararnir brugðust og skáldið tók því í staðinn að yrkja á „vandaðasta skjalapappír og víxiltilkynningar“. Hann starfaði við bókaútgáfu og gaf út tímaritið Helgafell (1942–1944) í nokkur ár ásamt vini sínum og ljóðaþýðanda, Magnúsi Ásgeirssyni (1901–1955). Tómas var eingöngu ljóðskáld og gaf hvorki út smásögur né skáldsögur en ritaði allmikið um bókmenntir og einnig frásöguþætti um þjóðleg efni ásamt Sverri Kristjánssyni sagnfræðingi. Þessir þættir urðu mjög vinsælir. Stíll hans var, eins og stíll Davíðs, aðgengilegur og laus við íburð í máli. Hann orti alla tíð hefðbundið en undir frjálslegum háttum. Líkt eins og með ljóð Davíðs, og raunar Steins líka, hafa menn samið mikið af lögum við ljóð Tómasar. Má þar nefna sem dæmi ljóðin Hótel jörð, Dagný (reyndar ort fyrir tónskáldið), Ég leitaði blárra blóma svo eitthvað sé nefnt.
Heimsstyrjöldin síðari og breytingar í nánd í bókmenntum
Þegar kemur fram um 1940 breytist margt í íslensku þjóðfélagi. Heimsstyrjöldin síðari skellur á 1939 eins og fyrr var nefnt og henni fylgir herseta hérlendis, fyrst Breta en síðar Bandaríkjamanna. Þá er skyndilega lokið öllu atvinnuleysi hérlendis en menn flykkjast af landsbyggðinni til þéttbýlisstaðanna, einkum þó Reykjavíkur og suðvesturhornsins til þess að leita sér að atvinnu. Áhersla á stéttabaráttu minnkar nokkuð og þjóðlífið tekur allt miklum breytingum. Nýjar áherslur verða áberandi í allri umræðu og lokaþáttur í sjálfstæðisbaráttunni hefst. Henni lýkur svo árið 1944 þegar þjóðin fagnaði sjálfstæði sínu í rigningunni á Þingvöllum 17. júní á því ári. Kjör almennings batna snögglega við hina miklu atvinnu en menn finna þó að tilveru þeirra er ógnað. Styrjöldinni lýkur með því að atómvopnum er beitt í fyrsta sinn í veraldarsögunni og óttinn við gjöreyðingu setur nú svip sinn á líf manna og í bókmenntum okkar kemur þetta skýrt fram. Halldór Laxness semur skáldsögu sem hann kallar Atómstöðina 1948. Þar er fjallað um þá ósk Bandaríkjamanna að hafa hér á landi herstöð til 99 ára. Óhætt er að segja að þetta mál hafi klofið þjóðina í gagnstæðar fylkingar. Sumir voru fylgjandi þessu máli en aðrir andsnúnir. Samþykkt var á alþingi 30. mars árið 1949 að ganga í NATO, varnarbandalag vestrænna þjóða. Barist var á Austurvelli og lögreglan beitti táragasi til þess að dreifa mannfjöldanum. Um 1950 kom svo fram ný kynslóð skálda, atómskáldin, sem svo voru kölluð. Halldór Laxness hafði nefnt ungt skáld í bók sinni atómskáldið að nokkru leyti í háðungarskyni en svo fór að skáldahópurinn fékk þetta nafn en er samt stundum einnig kenndur við formbyltingu eða módernisma. Nú verða vatnaskil og mikil formbylting á sér stað í skáldskapnum. Skáldin höfnuðu að mestu leyti hinu hefðbundnu þáttum bundins máls: stuðlum, rími og reglubundinni hrynjandi. Efni ljóðanna var þó það sem mestu skipti og efnistökin: nú var ort á knappan hátt, með miklu myndmáli og oft torskildu um flókinn heim og viðsjárverðan.
Heimildir
Dagný Kristjánsdóttir. 2010. Öldin öfgafulla. Bókmenntasaga tuttugustu aldarinnar. Bjartur. Reykjavík.
Einar Laxness. 1998. Íslands saga I-III, a-ö. Alfræði Vöku–Helgafells. 2. útgáfa. Vaka-Helgafell. Reykjavík.
Hannes Pétursson. 1980. Bókmenntir. Alfræði Menningarsjóðs. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins. Reykjavík.
Hugtök og heiti í bókmenntafræði. 1989. Jakob Benediktsson ritstýrði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. Mál og menning. Reykjavík.
Íslensk bókmenntasaga III-IV. 1996 og 2006. Ritstjóri þriðja bindis: Halldór Guðmundsson. Ritstjóri fjórða bindis: Guðmundur Andri Thorsson. Mál og menning. Reykjavík.
Íslenzkt skáldatal a-ö. 1976. Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins. Reykjavík.